Tenglar

30. desember 2015 |

Nýr Breiðfirðingur: Annað heftið í undirbúningi

1 af 4

Vesturbyggð verður kjarnabyggðarlagið í næsta hefti af ársritinu Breiðfirðingi (Nýjum Breiðfirðingi), sem kemur út í maí. Í hefti ársins 2015 voru sagnfræðingar hin fræðilega uppistaða en að þessu sinni verða það náttúrufræðingar og náttúra Breiðafjarðar. Þar fyrir utan er margt annað skemmtilegt og fróðlegt í deiglunni hjá Svavari Gestssyni ritstjóra. Söfnun efnis er langt komin og má geta þess, að snemma í haust fór Svavar ásamt Hauki Má Haraldssyni samverkamanni sínum við útgáfuna um Dalabyggð og Reykhólahrepp og tóku þeir fjölda mynda sem birtast munu í ritinu.

 

Tímaritið Breiðfirðingur kom út á árunum 1942-2009 en lagðist þá í dvala. Í fyrrahaust ákvað stjórn Breiðfirðingafélagsins að koma ritinu á fætur að nýju og var Svavar Gestsson fyrrv. alþingismaður og ráðherra fenginn til ritstjórnar. Svavar átti æsku sína og uppvöxt við Breiðafjörðinn og hefur núna um nokkurt árabil verið ásamt eiginkonu sinni með annan fótinn í Hólaseli í Reykhólasveit.

 

Fyrsta heftið af Nýjum Breiðfirðingi kom út í vor, efnismikið rit, nærri 200 blaðsíður, og skiptist í fjóra hluta.

  • Í fyrsta hlutanum er almenn samantekt um sveitarfélögin átta kringum Breiðafjörð. Ef til vill hafa einhverjir hnotið þar um Tálknafjarðarhrepp, sem liggur ekki að Breiðafirði. Ástæðan er sú, að Vesturbyggð umlykur Tálknafjörð og teygir sig norður fyrir hann.
  • Annar hlutinn er sagnfræðihluti ritsins og skrifa þar átta sagnfræðingar um Breiðafjörðinn. Það tengist verkefni sem unnið var við Háskóla Íslands um sögu Breiðafjarðar undir stjórn Sverris Jakobssonar prófessors, sem á ættir að rekja meðal annars í Breiðafjarðareyjar.
  • Í þriðja hlutanum er fjallað um Stykkishólm, en hverju hefti er valið eitt kjarnabyggðarlag. Eins og áður sagði verða Vesturbyggð gerð skil með sama hætti í því hefti sem er unnið að núna.
  • Fjórði og síðasti hluti samanstendur af alls kyns efni víðs vegar af svæðinu. Meðal annars er þar fjallað um ástarbréf sem skáldið Steinn Steinarr skrifaði árið 1931 (Þórhildur, ég elska þig).

Þetta fyrsta hefti af Nýjum Breiðfirðingi hlaut einstaklega góðar viðtökur og prenta þurfti annað upplag.

 

Almennar upplýsingar um ritið og efnisyfirlitið má lesa á myndum 2 og 3.

 

Þeir sem vilja gerast áskrifendur að Nýjum Breiðfirðingi geta skráð sig hér á vef Breiðfirðingafélagsins.

 

Fyrri árganga Breiðfirðings (þess eldra) er hægt að fá hjá Breiðfirðingafélaginu.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31