Nýr holdanautastofn ræktaður hérlendis
Stefnt er að því að fósturvísar úr norskum holdanautum verði settir í kýr á nýrri einangrunarstöð á Stóra-Ármóti í Flóa í sumar. Ef það tekst má búast við að kjötið af fyrstu sláturgripunum af hinum nýja stofni komist á markað eftir 5-6 ár. Landssamband kúabænda (LK) hefur pantað frá Noregi fósturvísa af hreinræktuðu Aberdeen Angus-kyni.
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK, segir að afar strangar reglur gildi um þennan innflutning. „Ég tel að líkurnar á að smit berist með þessum innflutningi séu nánast engar,“ segir hann.
Baldur Helgi segir að Aberdeen Angus hafi orðið fyrir valinu vegna þess að gripirnir séu þokkalega harðgerir, þeir séu á útigangi í nágrannalöndunum. Þeir séu nægjusamir, nýti vel beit og henti aðstæðum hér vel. Hann segir að Limousine-kynið henti betur í blendingsræktun með mjólkurgripum. Þeir vaxi hraðar en séu kröfuharðari á fóður en Angus. Hann telur ekki ólíklegt að fósturvísar af Limousine-kyni verði fluttir inn í framhaldinu.
Holdagripir af báðum þessum kynjum auk Galloway-nautgripa eru til í landinu. Stofnarnir eru hins vegar orðnir úrkynjaðir vegna mikillar skyldleikaræktunar, ekki síst Angus- og Limousine-gripirnir.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.