Tenglar

18. ágúst 2008 |

Nýr skólastjóri við Reykhólaskóla

Júlía Guðjónsdóttir.
Júlía Guðjónsdóttir.

„Það er spennandi að takast á við þetta", segir Júlía Guðjónsdóttir, sem ráðin hefur verið skólastjóri Reykhólaskóla og tekur við af Jóhönnu Þorsteinsdóttur. Júlía er tæplega þrjátíu og eins árs, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1997 og námi við Kennaraháskóla Íslands árið 2002. Sérsvið hennar var íslenska en meðan á náminu stóð fór hún eina önn til Danmerkur í skiptinám. Næstu fimm árin kenndi hún við Rimaskóla í Grafarvogi og hafði jafnframt umsjón með öllu félagsstarfi nemenda. Síðasta vetur kenndi hún við Lækjarskóla í Hafnarfirði.

Sambýlismaður Júlíu er Gunnar Guðmundsson. Þau eiga soninn Guðjón Andra sem er á öðru ári og fyrir á Júlía tíu ára dóttur, Fanneyju Sif.

 

Júlía er uppalin í Hveragerði að undanskildum árunum 1979-86 þegar hún átti heima að Laugum í Sælingsdal. Undanfarin ár hefur hún búið í Reykjavík. Hún býr að margvíslegri starfsreynslu frá fyrri tíð, svo sem við Jafningjafræðsluna í Hinu Húsinu í Reykjavík árið 2000 og á Leikskólanum Árborg í Reykjavík 1997-98, auk ýmissa sumarstarfa.

 

Gunnar sambýlismaður Júlíu er starfsmaður Íslenskrar Dreifingar í Reykjavík og kemur ekki til búsetu á Reykhólum a.m.k. að sinni. Júlía hefur verið á Reykhólum síðustu vikurnar að kynnast skólanum og starfsfólkinu og aðstæðum öllum og segir að starfið leggist vel í sig. Reykhólaskóli verður settur á föstudag.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30