Tenglar

15. júlí 2012 |

Nýr tannlæknir í Búðardal og á Hólmavík

Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson tannlæknir.
Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson tannlæknir.

Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson tannlæknir í Kópavogi hefur tekið við rekstrinum á tannlæknastofunum í Búðardal og á Hólmavík af Erling Valdimarssyni, sem er á förum til Danmerkur. „Ég hyggst reyna að halda áfram hinu góða starfi Erlings“, segir Vilhjálmur, sem áformar að koma á tveggja til þriggja vikna fresti á þessa tvo staði og vera þá nokkra daga í senn. „Eins kem ég til með að hafa tannlækni mér til aðstoðar í einhver skipti á ári þegar ég kemst ekki sjálfur.“

 

Vilhjálmur útskrifaðist sem tannlæknir árið 1998 og starfaði fyrst á Selfossi og Hellu ásamt því að þjóna einnig Djúpavogi og Breiðdalsvík. Árið eftir opnaði hann tannlæknastofu í Kópavogi. Framan af starfaði hann áfram á fyrrgreindum stöðum samhliða eigin stofu en sneri sér alfarið að rekstri hennar fyrir fimm árum.

 

„Ég stunda allar almennar tannlækningar, tanngervasmíði, rótfyllingar og þess háttar“, segir hann. „Líka hef ég verið duglegur að endurmennta mig, bæði hér innanlands og erlendis, hef sótt námskeið í sérhæfðum beinaðgerðum og ísetningu tannplanta í kjálkabein.“

 

Vilhjálmur kveðst vera þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga gott með að vinna með börnum.

 

„Lengi býr að fyrstu gerð, eins og máltækið segir. Þess vegna er mikilvægt að fyrstu heimsóknir barns séu jákvæðar og skemmtilegar, því að þetta á eftir að fylgja börnunum um ókomin ár og stuðla að því að þau mæti reglulega og áhyggjulaus til tannlæknis og hljóti við það góða tannheilsu til framtíðar“, segir hann, og vonast eftir jákvæðum viðtökum og góðu samstarfi í framtíðinni.

 

Tímapantanir á tannlæknastofunni í Búðardal verða eftir sem áður í símum 434 1445 og 695 7742.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31