Tenglar

13. september 2015 |

Nýtist líka berjatínslufólki úr 101 Reykjavík

Ráðherra og vegamálastjóri við klippinguna. Ásborg Styrmisdóttir bíður með púðann. Ljósm. Vegagerðin.
Ráðherra og vegamálastjóri við klippinguna. Ásborg Styrmisdóttir bíður með púðann. Ljósm. Vegagerðin.
1 af 6

Nýi vegurinn milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði var formlega tekinn í notkun í gær. Hann er 16 km langur og leysir af hólmi 24 km langan, mjóan, krókóttan og viðsjárverðan malarveg. Leiðin er nánast öll í Múlasveit, vestasta hluta Reykhólahrepps, nema landtakan vestan Kjálkafjarðar, þar sem Vesturbyggð tekur við. Athöfnin var með hefðbundnum hætti, Ólöf Nordal innanríkisráðherra og þar með ráðherra vegamála klippti á borða með aðstoð Hreins Haraldssonar vegamálastjóra.

 

Skæravörður var Ásborg Styrmisdóttir í Kaplaskjóli í Fremri-Gufudal í Reykhólahreppi. Fjöldi fólks var viðstaddur athöfnina, en formlegir fulltrúar Reykhólahrepps voru Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri og Áslaug B. Guttormsdóttir sveitarstjórnarmaður.

 

Við athöfnina benti vegamálastjóri á, að þessi nýi vegur myndi ekki nýtast eingöngu heimamönnum og hefðbundnum vegfarendum, heldur jafnvel líka fólki sem kæmi úr 101 í Reykjavík til að tína ber, sem þá gæti áttað sig á mikilvægi samgöngubóta sem þessara og hversu miklu þær skila samfélaginu öllu. Einhverjir munu líklega átta sig á dýpri merkingu þessara ummæla.

 

Vegamálastjóri og innanríkisráðherra og allir aðrir sem til máls tóku nefndu, að þótt það væri mjög ánægjulegt að þessari vegagerð væri lokið og þessi góði vegur tekinn í notkun, þá væri enn einn eftir einn kafli á sunnanverðum Vestfjörðum, um Gufudalssveit, og helst, að mati heimamanna, ætti sú leið að liggja um Teigsskóg. Þessu til áréttingar, að vegagerðinni væri ekki lokið, færði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar vegamálastjóra og innanríkisráðherra sinn hvorn pennann sem gerðir eru úr birki úr Teigsskógi. Nota á pennana við nauðsynlegar undirskriftir í því sambandi. Aðrir sem til máls tóku í móttöku að lokinni vígslunni nefndu einnig að bæta þyrfti í framhaldinu samgöngurnar á milli sunnanverðra Vestfjarða og norðanverðra.

 

____________________________

 

Ofanritað er að miklu leyti byggt á frásögn á vef Vegagerðarinnar eða tekið þar beint. Sjá meira hérnaþar sem jafnframt eru ítarlegar upplýsingar um framkvæmdina.

    

Athugasemdir

Orri ÓLafur Magnússon, sunnudagur 13 september kl: 18:44

Þakka þér fyrir þessa nytsamlegu ábendingu, Hlynur. Aldrei að vita nema ég renni á bílnum eftir þessum nýja malbikaða vegarspotta í berjatínslu - enda þótt ég eigi ekki heimilsfang í "101" heldur "107"

Hlynur Þór Magnússon, sunnudagur 13 september kl: 23:55

Þá verðurðu að haska þér, gamli góði samstúdent, áður en berin frjósa og við verðum ellidauðir, hvort sem fyrr kann að gerast :)

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30