Tenglar

22. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Nýtt fólk á Reykhólum frá Brasilíu og Danmörku

Morten og Denise við saltsuðupönnurnar.
Morten og Denise við saltsuðupönnurnar.
1 af 2

Hjónin Morten Grønborg og Denise Nascimento de Andrade komu í liðinni viku til búsetu og starfa á Reykhólum. Morten er verkfræðingur og hefur verið ráðinn framleiðslustjóri í saltverksmiðju Norðursalts við Reykhólahöfn, en Denise, sem er líffræðingur en hefur einkum unnið við nálastungur og nudd, hefur einnig verið ráðin til starfa.

 

„Við kynntumst Morten í gegnum sameiginlegan vin hans og Sørens [Rosenkilde],“ segir Garðar Stefánsson hjá Norðursalti. „Við áttum í smávegis byrjunarörðugleikum  og Morten bauðst til að aðstoða. Hann var ráðinn í þrjár vikur og náði að auka afköstin umtalsvert. Í kjölfarið buðum við honum stöðu framleiðslustjóra og í leiðinni Denise konu hans að vera hér í föstu starfi.“

 

Morten er upphaflega frá Árósum í Danmörku en hefur verið búsettur í Brasilíu síðustu árin. Denise er frá borginni Divinópolis í Brasilíu.

 

Sameiginlegur vinur leiddi Morten og Søren saman eins og áður sagði í lok október í sambandi við endurbætur á framleiðsluferlinu á Reykhólum. „Áhugi Sørens á saltgerðinni er smitandi og þess vegna kom ég til Íslands í síðasta mánuði til að aðstoða við tæknihliðina. Garðar Stefánsson tók afskaplega vel á móti mér, það sem lagfæra þurfti komst í lag og þeir Søren og Garðar voru ánægðir með útkomuna. Reyndar svo ánægðir, að þeir buðu okkur Denise báðum störf  til frambúðar.“ Þau Morten og Denise komu saman til landsins á þriðjudaginn síðasta og eru sest að á Reykhólum.

 

Denise Nascimento de Andrade er fædd árið 1977 í borginni Divinópolis (um 200.000 íbúar) í ríkinu Minas Gerais í Brasilíu, yngst af fjórum systkinum. Hún er líffræðingur að mennt en bætti síðar við sig námi í nálastungum við Unisaúde-háskólann í Goiás og starfaði á sjúkrastofnunum við nálastungur og nudd. Síðan vann hún við þetta sama á skemmtiferðaskipi áður en hún fór að starfa sjálfstætt. Auk þess hefur hún góða þekkingu á náttúrulækningum og hefðbundinni asískri lækningalist.

 

Í frístundum þykir Denise gaman að fara á bæjarrölt, fara á gott veitingahús eða sjá góða mynd í bíó. Henni finnst gaman að lesa og læra, fyrst og fremst um enskar og asískar lækningar og um asíska menningu og heimspeki. Auk þess finnst henni skemmtilegt að ferðast, að hafa það náðugt heima eða fara út og njóta náttúrunnar.

 

Denise talar brasilíska portúgölsku og spænsku og er að læra ensku og dönsku. Það sem henni þykir best við Ísland af kynnum hennar hingað til er fólkið og hin framandi náttúra, eldfjöllin og reyndar fjöllin yfirleitt, snjórinn og sjórinn.

 

Morten Grønborg er fæddur árið 1974 í Árósum í Danmörku, elstur þriggja systkina. Hann er verkfræðingur að mennt og hefur starfað í þeirri grein við framleiðslu drykkjarvatns í heimalandi sínu og við námavinnslu í Brasilíu. „Í frístundum nýt ég félagsskapar fjölskyldu og vina, náttúruskoðunar, tónlistar og góðra bóka, auk þess sem ég hef áhuga á tækni yfirleitt.“ Morten hefur stundað köfun í tuttugu ár og mótorhjól eru honum mikið áhugamál. „Það besta við Ísland og Reykhóla sérstaklega er stórkostleg náttúran sem umlykur okkur um leið og við komum út fyrir dyrnar, og svo það elskulega og ótrúlega hjálpsama fólk sem ég hef hitt,“ segir hann.

 

„Fyrstu kynni okkar Denise voru í flugvél þar sem við fengum sæti hlið við hlið, spjölluðum saman á blöndu af ensku og spænsku og enduðum á því að skiptast á netföngum.“ Seinna bauð Denise Morten að koma í heimsókn til Brasilíu og kynnast bæði landi hennar og fjölskyldu. „Í flugstöðinni í Brasilíuborg urðum við ástfangin. Við bjuggum í þrjár vikur í bílskúr í borginni Curitiba. Það var bæði notalegt og skemmtilegt. Eftir fríið fór ég aftur heim til Danmerkur að undirbúa búferlaflutning til Curitiba. Þar vorum við í hálft ár eða þangað til yfirvöld heimiluðu mér ekki lengri dvöl í landinu. Þá fórum við til Danmerkur og gengum í hjónaband og síðan aftur til Brasilíu þar sem við áttum heima núna í tvö og hálft ár,“ segir Morten.

 

„Við erum virkilega ánægðir að fá þetta duglega og hæfa fólk í teymið okkar og fögnum því hversu fjölbreyttur og alþjóðlegur hópur stendur að fyrirtækinu. Okkar sýn er ekki aðeins að búa til besta salt í heimi, heldur einnig frábært fyrirtæki þar sem fólk fær að njóta sín í vinnu og búa til frábær matvæli með sjálfbærni að leiðarljósi,“ segir Garðar Stefánsson.

 

Þess má geta hér til viðbótar, að þeim Garðari og Søren hefur nú borist svar frá ritara hennar hátignar Margrétar Þórhildar Danadrottningar við bréfi þar sem þeir minntu á gamalt loforð um styrk frá krúnunni ef saltverki yrði komið á fót á Reykhólum. Bréfið var afhent drottningu í heimsókn hennar til Íslands í síðasta mánuði ásamt pakka af flögusalti frá Reykhólum því til sönnunar að framleiðslan væri hafin. Í svari ritara er reyndar ekki vikið orði að hugsanlegum efndum heldur borin kveðja frá drottningu, sem þakkar kærlega fyrir saltið og söguna áhugaverðu.

 

Eins og hér kom fram á sínum tíma er sjálf saltvinnslan á Reykhólum aðeins fyrsta skrefið í verksmiðjunni. Ætlunin er að framleiða þar sitthvað fleira sem tengist salti sérstaklega, svo sem garum-sósu að hætti Rómverja og Forn-Grikkja.

 

► 29. maí 2013 Fleira en salt framleitt í saltvinnslunni á Reykhólum

► 11. nóvember 2013 Konungur lofaði styrk til saltvinnslu á Reykhólum

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31