Nýtt fyrirtæki með alla flutninga fyrir verksmiðjuna
Fyrir stuttu stofnaði Hlynur Stefánsson á Reykhólum ásamt Lovísu Ósk Jónsdóttur konu sinni flutningafyrirtæki sem ber heitið Leiftur flutningar ehf. Núna fyrir helgina var síðan gengið frá kaupum á 520 hestafla Volvo Globetrotter flutningabíl árgerð 2006. Fyrsta fasta verkefnið er þegar í höfn, en þar er um að ræða alla flutninga á framleiðslu Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum til Reykjavíkur. Ferðirnar suður eru að meðaltali tvisvar í viku með 20-24 tonn hverju sinni í fjörutíu feta gámum.
„Fyrir okkur vakir ekki annað en ef til vill það sem kalla mætti samfélagslega ábyrgð. Verksmiðjan er mikilvæg í samfélaginu og það munar um hvert einasta starf á svæðinu. Ef við getum átt þátt í að þau verði fleiri, þá skoðum við það,“ segir Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar.
„Hlynur hefur rætur á svæðinu, reynslu í flutningum og vilja til að takast á við ný verkefni, er ábyrgur og varkár. Þess vegna þótti okkur strax vert að skoða hans hugmyndir og úr hefur orðið samstarf sem vonandi verður öllum til heilla,“ segir Finnur ennfremur.
Eyvindur, fstudagur 06 mars kl: 10:17
Flott hjá öllum þessum aðilum, til lukku.