29. ágúst 2008 |
Ofsögum sagt af veginum um Þorskafjarðarheiði
Hér var í gær farið stórum orðum um ástand vegarins um Þorskafjarðarheiði. Þau ummæli voru byggð á frásögnum vegfarenda í síma og tölvupósti bæði við undirritaðan umsjónarmann þessa vefjar og við fréttavefinn bb.is á Ísafirði. Undirritaður grípur stundum í fréttaskrif fyrir bb.is og fékk beiðni þaðan um að skrifa frétt um þetta mál vegna kvartana sem þangað höfðu borist. Þá þegar hafði undirritaður fengið símtal frá manni sem bölvaði því innilega að hafa valið þessa nánast ófæru leið, að hann sagði, og var hann þó á bíl með sídrifi á öllum hjólum. Nú virðist sem lýsingar þessar hafi verið nokkuð orðum auknar og vegurinn um Þorskafjarðarheiði sé ekki alveg eins hábölvaður og ætla mátti af lestri fréttarinnar.