Oft komið með hrakið fólk ofan af heiðum
Halldóra Játvarðardóttir á Miðjanesi í Reykhólasveit (Lóa á Miðjanesi) hefur rekið bændagistingu í hálfan annan áratug. „Þetta hefur gengið alveg þokkalega öll þessi ár,“ segir hún. Gestum á Miðjanesi stendur til boða sextíu fermetra íbúð með sérinngangi á neðri hæð hússins hennar. Lóa segir að fólk sem gistir hjá henni fari mikið í gönguferðir, bæði niður að sjó og upp að fossi, til að njóta náttúrunnar og skoða fuglalífið, sem er óvíða ríkulegra en í Reykhólasveit. „Margir og þó sérstaklega þeir sem eru með börn hafa fengið að fara í fjós og fjárhús og heilsa upp á búpeninginn.“
Gistingin á Miðjanesi er opin allt árið. „Það var sérstaklega mikið um það í fyrravetur þegar oft geisuðu stórviðri, að björgunarsveitarmenn komu hingað með hrakið fólk ofan af heiðum til gistingar, oft eftir miðnætti, enda er þetta eina gistingin í sveitarfélaginu yfir veturinn.“
Í fyrra var lokið við að útbúa tjaldsvæði nokkur hundruð metra fyrir austan bæinn á Miðjanesi með bæði rafmagni og rennandi vatni.
Miðjanes er landnámsjörð á miðju Reykjanesi í Reykhólasveit, nokkra kílómetra fyrir utan Reykhólaþorp.
Þetta kom fram á fréttavefnum bb.is á Ísafirði í dag.