Öfugugginn í Grundarvatni og fleiri furðuskepnur
Svo bar til á hjáleigunni Kaldrana á Reykhólum, að komið var að öllu heimilisfólkinu látnu nema einni lítilli stúlku. Fólkið sat stirðnað á rúmum sínum í baðstofunni með askana á knjám sér og hafði verið að éta silung. Við athugun kom í ljós að silungur þessi var öfuguggi sem veiddur hafði verið í Grundarvatni uppi á Reykjanesfjalli ofan við Reykhóla, en öfuguggi er baneitraður, eins og flestum hefði mátt vera kunnugt. Litla stúlkan hafði ekki viljað silunginn og slapp þess vegna lífs frá málsverðinum. Um þennan atburð var kveðin eftirfarandi vísa:
Liggur lífs andvana
lýður á Kaldrana,
utan sú eina seta,
sem ekki vildi éta.
Núna er öfugugginn kominn á frímerki ásamt mörgum öðrum íslenskum furðuskepnum. Í bók sr. Sigurðar Ægissonar og Jóns Baldurs Hlíðberg, Íslenskar kynjaskepnur, sem kom út á liðnu hausti, eru rifjaðar upp þjóðsögur og sagnir um tugi slíkra kynjakvikinda.
Sigurður Ægisson er sóknarprestur á Siglufirði og var á sínum tíma prestur í Bolungarvík. Hann er jafnframt þjóðfræðingur að mennt og áhugamaður um íslenska náttúru jafnt í raunheimi sem dularheimum. Þess má geta, að sumar af hausmyndunum hér á vef Reykhólahrepps tók hann í fyrra í sjóferð út á Breiðafjörðinn með Birni Samúelssyni á Reykhólum. Myndirnar af furðukvikindunum eru nýjar frá hendi hins víðkunna teiknara náttúrulífsmynda, Jóns Baldurs Hlíðberg.
Í ferðablaðinu Vestfirðir sumarið 2008 sem út kom á vordögum á liðnu ári skrifar sr. Sigurður um ýmis þessara kvikinda sem eru eða verið hafa á Vestfjörðum, en hann var þá með áðurnefnda bók í vinnslu. Einnig birtust þar teikningar Jóns Baldurs Hlíðberg af kvikindunum. Ýmsar af þessum kynjaskepnum er að finna í Austur-Barðastrandarsýslu eða hafa verið þar. Einhverjar þeirra kunna að vera útdauðar. Ekki er vitað til þess að öfuguggi hafi veiðst í Grundarvatni á síðari árum. Hafi menn veitt hann sér til matar eru þeir a.m.k. af skiljanlegum ástæðum ekki til frásagnar um það. Eiturgedda hefur m.a. veiðst í Gedduvatni á Þorskafjarðarheiði. Skeljaskrímsli hefur sést í Gilsfirði og við Barma í Reykhólasveit.
Hér fara á eftir kaflar úr því sem sr. Sigurður skrifaði í blaðið Vestfirðir sumarið 2008.
____________________________
Af öfuguggum og öðrum kynjaskepnum á Vestfjörðum
Ég hef búið í öllum fjórum landsfjórðungunum og átt þar góðar stundir, en af hinum ólöstuðum tel ég hiklaust Vestfjarðahlutann þó langeftirminnilegastan. Ég veit ekki nákvæmlega af hverju, en grunar að það sé vegna einhvers samspils á milli hinnar óspilltu og kraftmiklu og dulúðugu náttúru og fólksins hugaða sem þar býr, allra garpanna og kvenskörunganna, sem þó eru svo agnarsmá andspænis hinni miklu og óræðu tign. Þarna betur en á öðrum stöðum í landinu upplifir maður þetta og getur ekki annað en fyllst djúpri lotningu.
Ferðalangar, sem „allt“ hafa séð og upplifað, ættu að horfa þangað vestur. Eftir að ég flutti þaðan 1993 dreymdi mig Hornstrandir og Jökulfirði sí og æ, og árin þar á eftir fór ég reglulega í heimsóknir til vina og kunningja, ekki síst til að geta andað að mér þessum sérstaka ilmi sem þar er yfir og allt um kring. Frelsinu.
Og þetta vita margir núorðið, einkum þeir sem eru á höttunum eftir kyrrð og friði, augnabliki frá amstri, ef ekki stríði, hversdagsins.
En þar vestra er líka annað að finna, sem ekki hefir verið svo mikið í umræðunni, þrátt fyrir Skrímslasetrið á Bíldudal, sem tæplega hefði getað fengið betri íverustað, enda Arnarfjörður annálaður fyrir að hýsa mörg þess lags kvikinda í iðrum sínum. Nema ef vera kynni Reykjarfjörður á Ströndum; hann var nefnilega á dögum Jóns Guðmundssonar hins lærða kallaður Skrímslafjörður, vegna þess sama. Nei, það sem ég á við eru öll hin kynjadýrin sem í gegnum tíðina hafa vafrað þar um eða svamlað og greint er frá í rituðu máli víða, en hefur líka varðveist á tungu íbúanna. Þetta eru, í stafrófsröð, meðal annars eiturgedda, katthveli, loðsilungur, lyngbakur, múshveli, nauthveli, nykur, rauðkembingur, silungamóðir, skeljaskrímsli, skötumóðir, stökkull, sverðhvalur, sæneyti og öfuguggi. Og svo auðvitað fjörulallinn.
Eiturgedda
Eiturgeddan, sem oftar er nefnd vatnagedda, er stórvarasamur fiskur. Af örfáum örnefnum sem henni tengjast eru tvö á Vestfjörðum, þ.e. Gedduvatn á Þorskafjarðarheiði og Gedduvatn á Bæjardalsheiði, sem er á mörkum Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu. Jón Ólafsson úr Grunnavík í Jökulfjörðum lýsir henni nánar árið 1737, í „Ichtyographia Islandica eður Tilraun um lýsingu á sjóar- og vatnadýrum á Íslandi“. Hún er kringlótt, blá og loðin. Henni er illa við birtu enda að finna þar „sem sól skín ei á, annars drepst hún“. Þá herma munnmæli að óvættir flýi hana og að „smolt af henni soðinn sé við galdraverkjum, þeim sem af óhreinum öndum komnir eru. Svo er sagður mikill eiturkraftur hennar, að hún étur sig á eyktartíma gögnum skinn og ferfalt klæði, þó dauð sé.“ Í handriti einu frá 1862 er þetta óbermi sagt flyðrumyndað og einkum á sveimi ef þoka er uppi og drungi á undan ofsaveðri. Enn önnur heimild segir eiturgedduna gyllta á lit. Ástæðan er sú að kynin eru ólík, frúin ljós en karlinn dökkur.
Í júnímánuði árið 1945 var svo haft eftir 85 ára gamalli konu, að fyrir löngu hafi vinnukona ein á Ármúla í Norður-Ísafjarðarsýslu veikst snögglega af mjög einkennilegum sjúkdómi. Engin ráð dugðu til lækninga fyrr en gest úr öðrum landsfjórðungi bar þar óvænt að. Í kjölfarið voru menn sendir til að ná í geddu á Þorskafjarðarheiði. Renndu þeir í tvo sólarhringa en urðu ekki varir. Þá hugkvæmdist einum að beita fyrir hana gulli og tókst það vel, en ókindin var lífseig og það með ólíkindum; urðu þeir að bíða tvær eyktir eftir því að hún dræpist. Að því búnu margvöfðu þeir sköturoðum um hendurnar áður en þeir tóku á gripnum og bundu í klyf. „Síðan halda mennirnir niður Langadal. Þá er þeir koma að Kirkjubóli þar í dalnum, voru reiðingar og móttök svo brunnin undan geddunni, að þeir urðu að fá nýja reiðinga. Lögðu þeir gedduna á meðan á hól nokkurn í túninu. En er þeir höfðu tekið gedduna aftur og gengið frá henni í klyf, var laut komin ofan í hólinn eftir hana, og er hann síðan nefndur Gedduhóll. Mennirnir urðu að fá nýja reiðinga oftar á leiðinni og ný sköturoð að vefja um hendur sér, og voru þó allir orðnir með rauða lófa, er þeir höfðu komið geddunni á leiðarenda. Gedduna lögðu þeir á hellu mikla í bæjardyrum. Í þeim svifum var vinnukonan að því komin að taka andvörpin. En hún var undir eins lögð á gedduna og snúið á ýmsa vegu, og var þá eins og við manninn mælt, að henni batnaði.“
Ekkert hefur frést af dáðum eða illverkum þessa botnsbúa á síðustu áratugum. Að minnsta kosti hefur það ekki farið hátt.
Skeljaskrímsli
Skeljaskrímsli er nafn á ferfættu kvikindi sem lítið er vitað um en talið að eigi sér heimkynni í sjónum við Íslandsstrendur og kannski víðar og sé þar að auki endrum og sinnum á róli í ósöltu vatni líka. Þetta er erfið skepna viðureignar, afar þrekleg en létt í spori og árásargjörn. Ekki bætir úr skák að dýrið er nær eingöngu á ferli eftir að skyggja tekur. Fyrir vikið eru lýsingar af því dálítið á reiki, eins og gefur að skilja enda allt annað en auðvelt að sjá það greinilega við þær kringumstæður. Þegar svo bætist við hin skelfilega og lamandi upplifun að mæta ófreskjunni og jafnvel takast á við hana upp á líf og dauða er ekki nema von að athyglisgáfan skerðist eða brenglist. En þegar reynt er að giska á stærðina er oft talað um vetrungsnaut eða þá gríðarstórt hross eða að notuð eru orðin „ýkja mikið vöxtum“ eða „eitthvert óttalegt bákn“ og þvíumlíkt. Stundum er kryppa á bakinu. Hali er langur, með klepp á enda. Fæturnir gildir og lágir, sporin nokkurn veginn kringlótt, á stærð við miðlungs potthlemm, og klær miklar sem glöggt hefur mátt ráða af djúpum förum í bæjarhurðum og dyrastöfum eftir heimsóknir skrímslisins. Önnur helstu einkenni eru digur háls og langir skoltar og veglegar tennur. Í einstaka tilvikum hefur kjafturinn sýnst glóa í maurildum innan. Þá eru augun rauðleit. Búkurinn er að mestu hulinn þéttri og litfagurri skeljarögg eða hreisturflögum. Á þetta stirnir ef tunglbjart er. Dýrinu fylgir einhvers konar skrölthljóð en ekki er ljóst hvort það er vegna samsláttar risavaxinna klónna eða hringl í sjálfri brynjunni.
Þessi forynja virðist einkanlega slæðast á land á haustin og veturna á undan langvinnum óveðrum eða eftir rosa með tilheyrandi hafólgu. Kannski er það engin tilviljun. Óþolandi fýla eða þráalykt er öruggt merki um að þess lags ókindur séu nærri. Er þá heillavænlegast að slökkva ljós því dýrin munu víst ganga á alla birtu.
Stofnstærðina veit enginn en umræddrar kynjaskepnu hefur orðið vart í öllum landsfjórðungum. Meðal nafngreindra staða vestra eru Gilsfjörður, Barmar í Reykhólasveit, Barðaströnd, Arnarfjörður, Dýrafjörður, Furufjörður og Reykjarfjörður syðri. Og í Fljótavík á Hornströndum, við Glúmsstaði, er eitt af örfáum dæmum um að skeljaskrímsli hafi dvalið í og komið úr ferskvatni. Þaðan er reyndar stutt í fjöruna og hafið.
Ekki þýðir að skjóta á þessi óféti með blýhöglum heldur verður að nota silfurhnappa eða lambaspörð eða fýra grávíðishumli úr byssu ef takast á að fella þau og getur það allt samt brugðist og litlar sögur fara af því að menn hafi náð ókvæmi af þessari sort með þeim græjum öllum. Tæpast þarf að nefna að broddstafir duga engan veginn. Enskur togari stalst hins vegar inn í einn Vestfjarðanna á 20. öld og fékk gripinn í vörpuna; urðu menn um borð að vonum skelfdir, hjuggu þessa óvæntu veiði af sér og létu sig hverfa hið snarasta.
Öfuguggi
Öfugugginn er ekki síðra eiturkvikindi en frændi hans, loðsilungurinn, eða þá eiturgeddan, sem gerð voru skil hér framar.
Í heimi vísindanna á öfuguggi upphaf rétt fyrir miðja 17. öld, eins og loðsilungur, þótt báðar tegundir hafi eflaust dvalið í íslensku ferskvatni um þúsundir ára, ásamt venjulegum silungum og urriðum. Er hann kynntur alheimi sem furðusmíð, „með öfugum uggum og sundfærum“ og baneitraður. Og í Skarðsárannál er þess getið við árið 1643 að maður og kona og sonur þeirra hafi um sumarið verið bráðkvödd á einum degi á Steinsvaði í Útmannasveit á Fljótsdalshéraði og „meintu menn það tilfelli skeð hafa af silungsáti, hver kallaður er öfuguggi“.
Hann er m.a. að finna í Grundarvatni í Reykhólasveit, í fremra Brúarárvatni í Strandasýslu og í Þyrilsvallavatni eða Þiðriksvallavatni í Strandasýslu. Og á Dufandisheiði eru meira að segja til Öfuguggavötn, þau einu í gjörvöllu landinu. Þangað var fyrir nokkrum árum gerður leiðangur vaskra sveina úr Bolungarvík eina helgina í þeim tilgangi að reyna að fanga défsa og skoða hann ærlega. Ég var þá að safna efni í væntanlega bók okkar Jóns Baldurs Hlíðberg, Íslenskar kynjaskepnur. En þrátt fyrir góða tilburði mikilla fiskfangara - vina minna tveggja úr Bolungarvík, Finnboga Bernódussonar og Magnúsar Ólafs Hanssonar - náðist ekki að góma ódáminn, því hann reyndist með eindæmum slægur. Og voru þó flotgallar og silunganet og önnur nýtísku vopn með í þeirri ágætu og stórmerkilegu för.
____________________________
Þannig skrifaði sr. Sigurður Ægisson. Þjóðsagan hér í upphafi um atburðinn á Kaldrana er rituð eftir minni. Undirritaður las hana í einhverju þjóðsagnasafni í æsku sinni og vonar að rétt sé farið með í meginatriðum. Það er hins vegar eðli þjóðsagna frá örófi alda, að þær ganga frá manni til manns í munnlegri geymd og þess vegna aldrei nákvæmlega eins hverju sinni. Ekki fyrr en tekið var upp á þeirri ósvinnu - eða hinu miklu þarfaverki, eftir því hvernig á það er litið - að skrá þær á bækur.
____________________________
Á frímerkjasíðu Íslandspósts segir meðal annars:
Í íslenskum þjóðsögum má finna fjölda frásagna um furðuverur í lofti, á láði og í legi. Í bók Sigurðar Ægissonar og Jóns Baldurs Hlíðberg, Íslenskar kynjaskepnur, sem kom út sl. haust eru rifjaðar upp helstu þjóðsögur og sagnir um ein 30 slík kynjadýr.
Tíu slíkar furðuskepnur prýða íslensk frímerki að þessu sinni, þar á meðal skoffín, sem sagt er afkvæmi tófu og kattar, og fjörulalli, sjávarskepna sem gat verið skaðleg kindum um fengitímann. Skeljaskrímsli er margfætt skepna, mórauð og loðin og hringlar í henni þegar hún hreyfir sig. Silungur einn var öfuguggi því uggarnar á honum sneru fram o.s.frv.
Frímerkin hannaði Hlynur Ólafsson grafískur hönnuður. Jón Baldur Hlíðberg teiknaði myndirnar.
Bókin var gefin út bæði á íslensku og ensku og er fáanleg hjá Frímerkjasölu Íslandspósts, verð kr. 3.495. Frímerkjaörkin fylgir bókinni.
____________________________
Smellið að venju á myndirnar til að stækka þær.
Vestfirðir sumarið 2008 (pdf-skjal, 8,85 MB). Á forsíðumyndinni er Finnbogi sá Bernódusson, sem var með sr. Sigurði Ægissyni í veiðiferðinni í Öfuguggavötn á Dufandisheiði.
Hugrún Otkatla, rijudagur 24 mars kl: 08:09
Góðan daginn...ætlaði bara að hæla þér /ykkur fyrir skemmtilega heimasíðu... Það er ekki Vísir eða Mogginn sem poppar upp hjá mér þegar ég opna tölvuna heldur REYKHÓLAVEFURINN!...haldið áfram að vera svona skemmtileg... kveðja úr Búðardalnum.