Tenglar

13. janúar 2009 |

Óhemjumikið af fugli á svæðinu í grennd við Reykhóla

Æðarfugl í þéttum hóp á Breiðasundi.
Æðarfugl í þéttum hóp á Breiðasundi.
1 af 7

Tómas Sigurgeirsson (Tumi) bóndi á Reykhólum segist aldrei áður hafa séð eins mikið af fugli í grennd við Reykhóla á þessum árstíma. Hefur hann þó talsverða reynslu, að ekki sé meira sagt, því að hann hefur alið hér allan sinn aldur og jafnan verið mikið á ferðinni á svæðinu árið um kring. „Maður hefur tekið eftir þessu", segir hann. Auk þess hefur Tumi í mörg ár annast fuglatalningu fyrir Náttúrufræðistofnun, hin síðari árin í félagi við Jón Atla Játvarðarson á Reykhólum. Fyrir fáeinum dögum brá Tumi sér í svolitla sjóferð á gúmmíbátnum Abbadísi sér til afslöppunar fram í Reykhólaeyjar og inn í botn Berufjarðar og hugaði að fuglum, þó að ekki væri þetta formleg fuglatalningarferð. Á leiðinni kom hann við í Kræklingahólma og kíkti þar á minkagildrur.

 

„Við Kotgil í sunnanverðum Berufirði var mikið um tjald", segir Tumi. „Við Jón Atli höfum aldrei séð tjald hér á svæðinu að vetri til fyrr en núna fyrir áramótin þegar við vorum að telja."

 

Á Breiðasundi milli Reykhóla og Miðhúsa voru teistur, þéttir hópar af æðarfugli og stórir hávelluhópar. Auk þess bar fyrir augu nokkra tugi af svartbak og hvítmáfi og á annað hundrað álftir. Líka var óhemja af stokkönd inni í Berufirði, líklega um þúsund fuglar. Einn haförn sá Tumi á flugi og landselsurta spókaði sig inn af Skerhólmunum. „Þetta er líklega sama urtan sem heldur sig alltaf þarna", segir hann.

 

„Mest var þó af æðarfuglinum. Ég hef aldrei séð eins mikið af æðarfugli hér á þessum tíma árs. Þetta var meira en á vorin þegar hann er að setjast upp."

 

Tumi telur að fuglinn hafi verið í einhverju æti. „Hann Kitti í Görðum [Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal] ávítaði mig fyrir að hafa ekki haft með mér net til að athuga hvort ekki væri þarna síld. Hann taldi að það hefði verið síld þarna inni í firðinum.“

 

Kristinn Haukur Skarphéðinsson fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun sagði í samtali við undirritaðan í gær, að eftir vikutíma eða svo yrði væntanlega búið að vinna úr fuglatalningunni í Reykhólahreppi fyrir áramótin og myndi hann þá láta vef Reykhólahrepps vita af niðurstöðunum.

 

Myndirnar sem hér fylgja tók Tumi í ferðinni. Þær eru ekki vel skýrar enda getur verið erfitt að eiga við stillingar og fókus einn á ferð á gúmmíbáti. Ein myndanna er þó af honum sjálfum, tekin í sumar við allt aðrar aðstæður og í návígi við fugl nokkurn af tegund sem ekki bar fyrir augu í sjóferðinni núna.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31