Tenglar

21. júlí 2008 |

Ólafsdalshátíð markar upphafið á endurreisn staðarins

Skólahúsið mikla í Ólafsdal frá 1896.
Skólahúsið mikla í Ólafsdal frá 1896.
1 af 3

Ólafsdalshátíð verður haldin í Ólafsdal í Gilsfirði sunnudaginn 10. ágúst. Tilefnið er, að um þessar mundir eru 170 ár liðin frá fæðingu Torfa Bjarnasonar, sem jafnan er nefndur Torfi í Ólafsdal (f. 28. ágúst 1838). Þar stofnaði hann árið 1880 fyrsta búnaðarskóla á Íslandi og rak hann fram til 1907 ásamt Guðlaugu Sakaríasdóttur konu sinni. Ætlunin er að þessi dagur marki upphaf á endurreisn Ólafsdals sem frumkvöðlaseturs með lifandi starfsemi á vettvangi ferðaþjónustu, mennningar, sjálfbærrar nýtingar og fræðslu.

Á hátíðinni, sem hefst kl. 14, verður undirrituð viljayfirlýsing milli landbúnaðarráðuneytisins og Ólafsdalsfélagsins ses. um að félagið fái umsjón með jörðinni í Ólafsdal. Jafnframt að félagið fái leyfi til framkvæmda við endurbætur á skólahúsinu í Ólafsdal, sem staðið hefur ónotað í um 30 ár, og öðrum byggingum í nágrenni þess.

 

Einar Kristinn Guðfinnsson landbúnaðarráðherra hefur boðað komu sína í Ólafsdal af þessu tilefni. Einnig verður öðrum ráðherrum boðið, þingmönnum kjördæmisins og ýmsum fleiri gestum. Jafnframt eru íbúar Dalabyggðar, Reykhólahrepps og annarra nærliggjandi sveitarfélaga hvattir til að koma, sem og afkomendur Torfa og Guðlaugar í Ólafsdal, gamlir nemendur úr Menntaskólanum við Sund og aðrir sem áhuga hafa. Ólafsdalshátíðin er styrkt af Menningarráði Vesturlands.

 

Á hátíðinni mun formaður Ólafsdalsfélagsins, Rögnvaldur Guðmundsson, gera stutta grein fyrir stofnun félagsins, stöðu mála og framtíðaráformum. Bjarni Guðmundsson prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og forstöðumaður Landbúnaðarsafns Íslands ses. flytur erindi um áhrif Ólafsdalsskólans á landsvísu og Jón Jónsson, þjóðfræðingur og menningarfulltrúi Vestfjarða, greinir frá tengslum Ólafsdalsskólans og Strandamanna, sem stóðu dyggilega við bakið á starfsemi hans. Landbúnaðarráðherra og fleiri munu einnig flytja ávörp.

 

Þá verður í boði leiðsögn um skólahúsið í Ólafsdal og nágrenni þess, sem er ríkt af sögu og minjum frá tímum Torfa Bjarnasonar og þeirra hjóna. Jafnframt gefst gestum kostur á veitingum á góðu verði.

 

Fyrr um daginn verður aðalfundur í Ólafsdalsfélaginu (áhugamannafélagi) haldinn að Tjarnarlundi í Saurbæ, en félagið var stofnað í Ólafsdal 3. júní í fyrra. Jafnframt verður þar haldinn stofnfundur í Ólafsdalsfélaginu ses. (sjálfseignarstofnun) þar sem ýmsum hefur verið boðin stofnaðild. Áhugamannafélagið mun þó starfa áfram og tilnefnir helming fulltrúa í fulltrúaráð Ólafsdalsfélagsins ses. Félagið hefur skráð lénið www.olafsdalur.is sem verður virkjað á næstu vikum.

 

Ólafsdalsfélagið hefur látið gera samantekt um líklegan kostnað við að gera upp hið myndarlega skólahús í Ólafsdal, sem byggt var árið 1896. Þá er unnið að samstarfsyfirlýsingu milli Ólafsdalsfélagsins og Landbúnaðarháskólans og Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri og verið er að skoða samvinnu við aðrar menntastofnanir á Vesturlandi og víðar. Þá fékkst nokkur styrkur á fjárlögum til að undirbúa endurbætur á skólahúsinu og auk þess upphafsframlag frá sveitarfélaginu Dalabyggð. Ólafsdalsfélagið stefnir að því að ná frekari samningum við ríkisvaldið um aðkomu að endurreisn Ólafsdals og jafnframt að fá einkaaðila til að leggja málinu lið, ásamt sveitarfélaginu Dalabyggð og fleirum.

 

Stjórn Ólafsdalsfélagsins skipa nú:

  • Rögnvaldur Guðmundsson, ferðamálafræðingur, formaður
  • Arnar Guðmundsson, blaðamaður
  • Guðjón Torfi Sigurðsson, kennari
  • Halla Steinólfsdóttir, bóndi og varaoddviti Dalabyggðar
  • Laufey Steingrímsdóttir, matvælafræðingur
  • Sigríður Jörundsdóttir, sagnfræðingur
  • Sumarliði Ísleifsson, sagnfræðingur
  • Svavar Gestsson, sendiherra
  • Þórður Magnússon, rekstrarhagfræðingur

Áhugasömum um málefni Ólafsdals er bent á að hafa samband við Rögnvald Guðmundsson, formann Ólafsdalsfélagsins, í netfanginu rognv@hi.is eða í síma 693 2915.

 

____________________________________


 

Um Ólafsdal og minjar þar


– Að mestu fengið úr skýrslu Gullinsniðs ehf. og Argos ehf. fyrir Ólafsdalsfélagið (f
ebrúar 2008)

 

Stefnt er að því að skrá sem nákvæmast allar rústir og leifar mannvirkja í Ólafsdal og hefja endurreisn þeirra og/eða viðgerð eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Fullnaðarviðgerð skólahússins hefur þó forgang. Kostnaðaráætlun um endurgerð og viðgerðir annarra mannvirkja verða ekki gerðar á þessu stigi. Fyrst þarf að kanna betur heimildir, skoða og mæla rústir og semja fyrstu drög að framkvæmdaáætlun.

 

Lausleg lýsing á aðstæðum


Bærinn Ólafsdalur er eini bærinn í samnefndum dal og dalurinn því allur í eyði nú. Frá fornu fari lá þjóðleiðin út með Gilsfirðinum að sunnanverðu rétt við flæðarmálið, nokkru neðan við núverandi þjóðveg. Frá fornu fari var bæjarstæðið í Ólafsdal um 120 metrum austar en nú. Skólahúsið er reisulegt, stendur á fallegum stað og ber allhátt þegar litið er til bæjarins frá þjóðveginum. Það var byggt árið 1896 og samanstendur af steinhlöðunum kjallara og tveimur hæðum, alls um 300 fermetrar. Viði í húsið flutti Torfi frá Noregi og að Borðeyri við Hrútafjörð, þaðan sem það var flutt í Ólafsdal.

 

Leiðin að húsinu liggur upp með austurbakka árinnar og upp svonefnt Barð, sem er gamall sjávarbakki. Þar tóku við breiðar og háar traðir til norðausturs, að norðurgafli hússins. Hlið var fyrir enda traðanna. Sunnan við traðirnar var skemma þar sem reiðtygi og reiðingur var geymdur. Norðan við traðaendann voru kvíar. Austurendi traðanna var 4-5 metra vestan við vesturhlið skólahússins, rétt norðan við húsgaflinn. Þar voru timburtröppur upp úr tröðunum til austurs og þar var gengið að aðaldyrum hússins. Á norðurvegg traðanna, rétt við enda þeirra, var stórt hlið og þaðan var farið í sveig norður og austur fyrir húsið. Í traðaendanum var hlaðinn pallur til að auðvelda konum og börnum að komast á hestbak. Traðirnar voru jafnaðar við jörðu fyrir nokkrum áratugum síðan en heimildir um þær eru ljósar. Austan við skólahúsið, á móts við norðurenda þess, var smiðja. Hún er nú löngu horfin (var rutt í burtu um 1970) en ennþá sér móta fyrir grunni hennar.

 

Rétt sunnan við smiðjuna var svokallað Lækjarhús. Það var með einhlöðnum grjótveggjum og læknum var veitt eftir stokk í gegn um húsið. Þar var mjólkurhús, þvottahús og sorphús. Í ofviðri 16. september 1936 fauk þakið af Lækjarhúsinu á smiðjuna og þaðan á íbúðarhúsið. Smiðjan skekktist á grunninum, enda var hún orðin léleg. Skömmu síðar var hún rifin. Lækjarhúsið var hins vegar endurbætt. Við norðurgafl Lækjarhússins var kamar, þrískiptur. Veggir Lækjarhússins standa enn uppi og ýmis ummerki eru um upphaflega gerð þess. Læknum var veitt um langan veg að húsinu og rennur hann enn eftir þeim farvegi. Vatnsveitan í gegnum húsið er enn greinileg. Efri hluti húsgaflanna var úr timbri og hefur annar þeirra fallið í heilu lagi af húsinu. Þetta hús hefur verið mjög sérstakt. Ekki er höfundum þessarar greinargerðar kunnugt um annað hús sömu gerðar og frá svipuðum tíma. Bæði hefur notkun hússins verið sérstök svo og gerð þess. Ástæða er til að varðveita þetta hús og endurgera þak þess og glugga.

 

Rétt sunnan við skólahúsið eru tveir húsgrunnar. Sá eystri er undan gamla skólahúsinu sem flutt var um set um 1896. Rétt vestan við það er grunnur undan hjalli sem þar stóð. Suðurhúsið, eins og gamla skólahúsið var kallað, skemmdist í miklu roki um 1925. Efri hæð hússins var þá rifin og nýtt þak sett á það. Ekki er fullljóst hvenær húsið var rifið, en láta mun nærri að það hafi verið um 1970. Hjallurinn var rifinn skömmu fyrir 1963.

 

Fáeinum tugum metra sunnan við skólahúsið standa enn miklir tvíhlaðnir grjótveggir fjóss sem byggt var skömmu fyrir aldamótin. Sunnan við fjósið var haughús, sem einnig var með grjótveggjum en er nú horfið. Fjósveggirnir eru fallegir, vaxnir skófum. Hér er einnig um mjög sérstakt mannvirki að ræða sem full ástæða er til að varðveita.

 

Rétt vestan við fjósveggina er einfaldur timburkamar frá dögum menntaskólaselsins. Ástæða er til að rífa hann. Á bakkabrúninni, skammt vestan við fjósið gamla eru tvær steinsteyptar súrheysgryfjur. Þær eru ekki til prýði og geta ekki talist merkar menningarminjar. Æskilegt væri að þær yrðu brotnar niður og urðaðar. Fjóshlaða var áður fyrr rétt austan við veginn meðfram fjósinu. Áfast henni var hesthús. Þau hús og grunnar sem hér hafa verið talin mynda húsaþyrpingu staðarins. Nokkru sunnan við húsin, um 200 metrum, eru tóftir hesthúss og hesthússhlöðu sem grafin hefur verið niður í jörð með steinhlöðnum veggjum. Fjárhús og fjárhússhlaða voru beint upp af hesthúsinu, á hátúninu. Enn sunnar, eða um 450 metrum frá íbúðarhúsinu, neðan við bakkann, er grunnur tóvinnuvélahúss, sem þar var reist fyrir aldamótin. Það var stórt tvílyft hús með vélabúnaði til tóvinnu. Langur áveituskurður lá að húsinu og vatni úr ánni var veitt um hann og þaðan eftir tréstokk til að falla niður á hverfihjól sem knúði ás sem lá eftir húsinu endilöngu. Frá honum voru reimar sem knúðu vélarnar. Tóvinnuhúsið brann um 1909. Grunnur hússins er þó enn greinilegur og áveitumannvirkið. Í grunninum stendur enn hluti af búnaði hverfihjólsins, en sjálft er hjólið nú varðveitt á byggðasafninu að Laugum. Móhús var innarlega í dalnum þar sem mógrafir voru. Aðalfjárhús búsins ásamt hlöðu var niðri á eyrum, skammt frá sjó.

 

____________________________________


 

Vilja hefja Ólafsdal til vegs og virðingar


– Skessuhorn, júní 2007

 

Síðastliðinn sunnudag var Ólafsdalsfélagið stofnað. Stofnfundurinn fór fram í Ólafsdal og var Rögnvaldur Guðmundsson ferðamálafræðingur kjörinn formaður félagsins. Aðrir í stjórn eru Guðjón Torfi Sigurðsson oddviti Dalabyggðar, Svavar Gestsson sendiherra, Sigríður Jörundsdóttir sagnfræðingur, Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur, Þórður Magnússon framkvæmdastjóri og Halla Steinólfsdóttir bóndi í Ytri-Fagradal en hún situr einnig í sveitarstjórn Dalabyggðar. Í varastjórn eru Arnar Guðmundsson, blaðamaður og Laufey Steingrímsdóttir verkefnisstjóri á Hvanneyri. Sumarliði Ísleifsson sagði í samtali við Skessuhorn að næsta skref hjá samtökunum yrðu að óska eftir viðræðum við landbúnaðarráðuneytið um Ólafsdal, en jörðin er ríkisjörð.

 

Markmið

Markmið samtakanna er að stuðla að eflingu og varðveislu Ólafsdals í Dölum, sem er í flokki merkustu menningarminja á Vesturlandi. Stuðla á að því að staðurinn verði meðal helstu kennileita í Dölum og laði að ferðafólk, atvinnu, hugvit og fjölbreytni. Forða á staðnum frá frekari skemmdum og gera vandaðar áætlanir um uppbyggingu hans í framtíðinni. Samtökin ætla að afla fjár til uppbyggingarstarfsins og standa að kynningu og markaðssetningu Ólafsdals. Þá er ætlunin að setja fram hugmyndir að nýsköpun í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum í Dalabyggð og Reykhólahreppi til að styrkja ímynd og atvinnulíf svæðisins. Samtökin ætla að stuðla að samstarfi við aðila sem vinna að sambærilegum málum í menningarferðaþjónustu innanlands sem utan. Skessuhorn ákvað að líta um öxl og rifja upp merkilega sögu staðarins. Við eftirfarandi yfirlit um Ólafsdal hefur verið stuðst við samantekt Eyjólfs Bjarnasonar sem finna má á heimasíðu Dalabyggðar og fleiri heimildir.

 

Fyrsti búnaðarskólinn

Ólafsdalur gengur inn úr Gilsfirði í suðaustur. Árið 1880 var fyrsti búnaðarskólinn á Íslandi stofnaður þar, að tilstuðlan Torfa Bjarnasonar. Torfi fæddist árið 1838 á Skarðsströnd, en ólst upp í Bessatungu í Saurbæ, hvar Stefán frá Hvítadal bjó síðustu ár sín. Torfi lærði ungur af reyndum bændum, sem unglingur á Kleifum og á Skarði. Um tvítugt fór hann til Flateyjar og lærði hjá Ólafi jarðyrkjumanni. Þar starfaði 1857-1860 jarðyrkjuskóli fyrir tilstilli séra Ólafs Sívertsen. Þar fékk Torfi fyrstu tilsögn í búvísundum þess tíma. Torfi vann síðan að búi foreldra sinna í Bessatungu, en fór að góðra manna ráði árið 1866 til Skotlands að kynna sér búnaðarhætti þar. Tók hann 500 ríkisdala lán til fararinnar og naut liðsinnis fjölda manna, m.a. Ásgeirs Einarssonar, þingmanns Strandamanna og Húnvetninga, og Jóns Sigurðssonar forseta, en Torfi skrifaði fjölda greina um veru sína í Skotlandi í Ný félagsrit.

 

Leitað til heimaslóða

Áætlan Torfa var að reisa fyrirmyndarbú í Húnavatnssýslu að loknu námi, en þegar til kom fékkst ekki jarðnæði. Hann kom því upp búi á Varmalæk í Borgarfirði, en undi sér ekki þar því  hugurinn leitaði heim í Saurbæinn. Árið 1871 keypti hann Ólafsdal og reisti þar bú, ásamt konu sinni Guðlaugu Zakaríasdóttur. Tveimur árum síðar hélt Torfi vestur um haf og festi sér land í Nebraskafylki. Guðlaug ætlaði að feta í fótspor hans ári síðar, en áður en til þess kom snéri Torfi aftur heim. Með í farteskinu hafði hann ýmsa verkþekkingu sem hann hafði kynnst ytra, m.a. nýjan ljá sem tók við af bakkaljánum og var yfirleitt nefndur Torfaljárinn.

 

Skólinn stofnaður

Árið 1879 samþykkti amtsráð Vesturamts tilboð Torfa um stofnun búnaðarskóla í Ólafsdal og veitti fjárstyrk þar til. Torfi hófst handa við undirbúning, stækkaði húsnæði og náði sér í verkfæri. Vorið 1880 var skólinn stofnaður formlega undir forystu Torfa sem var skólastjóri og eini kennarinn fyrstu þrjú árin, þegar hann fékk aðstoðarmann. Torfi samdi einnig mikið af kennsluefninu sjálfur. Árið 1885 samþykkti amtsráð Vesturamts skóla formlega sem opinbera stofnun og fékk hann þá nægilegt fjármagn til reksturs. Tíu árum síðar stórskemmdist gamla skólahúsið í ofviðri. Torfi leitaðist eftir að fá styrk til að reisa nýtt skólahús, en þurfti á endanum að taka 12.000 króna lán með veði í jörðinni. Reisti hann þá skólahús það sem enn stendur.

 

Verkfærasmíði

Námið í Ólafsdal var skipulagt til tveggja ára og stunduðu nemendur bóklegt nám 48 stundir á viku. Verknám var kennt fyrstu fimm mánuðina og fimm tíma á dag uppfrá því, jafnhliða því bóklega. Nemendur voru allir piltar og stunduðu 10-12 nám við skólann árlega. Námsefnið var ýmiskonar jarðrækt, hugvinna, húsabyggingar, búfjárhald, móskurður, smíðar og aðdrættir. Torfi hélt nákvæmt bókhald yfir það sem smíðað var í skólanum og voru það um 800 jarðyrkjuverkfæri á starfstíma skólans. Þau voru af ýmsum toga, plógar, herfi, hesthemlar, aktygi, hestakerrur, hestarekur og hjólbörur, svo eitthvað sé nefnt. Þá voru smíðaðir 700 ristuspaðar og mikill fjöldi hestajárna, ljáblaða og heynála. Verkfærin fóru um allt land og stuðluðu að betri verkmenningu í sveitum.

 

Fjárhagsvandræði

Þrátt fyrir að skólinn væri opinber stofnun þurfti Torfi sjálfur að standa straum af ýmsum kostnaði, líkt og láninu vegna endurbyggingar hússins. Fyrstu þrjú árin var hann launalaus og fjárhagslegar skuldbindingar voru á hans herðum, með veði í jörðinni. Um aldamótin 1900 reyndi hann að fá Vesturamtið til að kaupa skólann af sér en yfirvöld neituðu, ekki síst vegna þess að komnir voru skólar víðar um land s.s. á Hvanneyri og Hólum. Árið 1907 var skólinn lagður niður og ríkið tók allar eignir Torfa upp í skuldir við dauða hans 1915. Guðlaug ekkja hans fékk þó að búa í Ólafsdal til dauðadags 1937, en yngsti sonur þeirra Markús sá um búið fyrstu árin eftir fráfall Torfa. Borghildur systir Torfa bjó einnig í Ólafsdal til æviloka en hún varð 99 ára gömul.

 

Mannmargt tvíbýli

Frá því um 1928 og fram til 1963 bjuggu í Ólafsdal hjónin Rögnvaldur Guðmundsson og Sigríður Guðjónsdóttir, síðustu árin í félagsbúi við son sinn Guðmund Rögnvaldsson og konu hans Guðbjörgu Valdimarsdóttur. Mestallan þennan tíma var tvíbýli í Ólafsdal og bjuggu þar einnig Sæmundur Lárusson og Guðrún Guðlaugsdóttir og síðan Kristinn Sigurvinsson og Guðbjörg Magnúsdóttir.  Var oft mannmargt í Ólafsdal og fjölmargt fólk sem hafði þar sumardvöl auk heimanna og barna þeirra. Áfram var búið í Ólafsdal með hléum fram til 1972 en þá varð húsið menntaskólasel Menntaskólans við Sund og var svo næstu 20 ár.

 

Endurbætur

Í Ólafsdal sjást enn merki um framkvæmdir Torfa Bjarnasonar. Gamla skólahúsið stendur enn og var ráðist í endurbætur á því árin 1995-1998, fyrir atbeina Búnaðarsambands Dalamanna. Þær sneru eingöngu að ytra byrði hússins, en það þarfnast endurbóta að innan. Ólafsdalsfélagið hefur hug á að hefja menningarverðmætin í Ólafsdal til fyrri vegs og virðingar. Auðvelt ætti að vera að ná samstöðu um það, enda merkileg saga sem býr þar.

kóp

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30