Tenglar

8. júlí 2015 |

Ólík viðfangsefni ferðafólks í Króksfjarðarnesi

Nokkuð á sjöunda hundrað manns hafa lagt leið sína í Kaupfélagið gamla í Króksfjarðarnesi síðan þar var opnað snemma í júní. „Við fengum einn stóran hóp eða yfir fjörutíu manns frá stéttarfélaginu Eflingu, sem kom í kaffi og kökur og skoðaði arnarsýninguna. Mikið hefur verið um erlenda ferðamenn, en Íslendingarnir eru farnir að ferðast núna um og eftir mánaðamótin,“ segir Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir þjóðfræðingur, sem hefur umsjón með allri starfseminni í Nesi í sumar.

 

Meðal annars er nytja- og bókamarkaðurinn til staðar í Nesi eins og síðustu ár, en í smærri mynd en áður. „Fólki er velkomið að láta okkur fá til dæmis gömul fótanuddtæki og gamlar bækur,“ segir Guðlaug. „Handverksfélagið Assa sér um gullfallegt handverk eins og síðustu ár, ferðamenn hafa hrósað því í bak og fyrir, bæði fyrir gæði og fjölbreytni. Uppstoppaða assan með illskeytta augnaráðið stendur enn vaktina inni á sýningunni í Össusetrinu. Líka er Nesskel farin að selja kíló af kræklingi á tólf hundruð krónur.“

 

Í gamla kaupfélagshúsinu í Króksfjarðarnesi rétt vestan við Gilsfjörð er notalegur áningarstaður fyrir ferðamenn. Um helgar í sumar eru vöfflur í boði en alla daga kökur og grillaðar samlokur með kaffinu og stundum slæðast inn eins og einn kleinupoki eða lítil formkaka.

 

Opið er í Króksfjarðarnesi dag hvern kl. 11-17 í sumar og stundum lengur ef vel liggur á fólkinu sem þar vinnur. Ekkert kostar að skoða handverkið og nytjamarkaðinn en inn á sýninguna sjálfa á Össusetri Íslands kostar 500 krónur fyrir 16 ára og eldri, 350 krónur fyrir eldri borgara. Síminn er 426 5769.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31