Tenglar

25. apríl 2013 | vefstjori@reykholar.is

Ólína: Vestfjarðavegur 60 er forgangsverkefni

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.
1 af 2

„Vestfjarðavegur 60 er og hefur verið forgangsverkefni stjórnarflokkanna á þessu kjörtímabili, og yrði það áfram verði sömu flokkar við stjórn eftir kosningar. Hins vegar er mikilvægt að leysa fljótt og vel þau vandkvæði sem verið hafa vegna leiðarvals um Gufudalssveit.“ Þetta segir Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður, sem skipar 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. Þingmenn Samfylkingarinnar, þau Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Ólína Þorvarðardóttir, héldu opinn fund í SjávarSmiðjunni á Reykhólum á mánudag, þar sem samgöngumálin bar títt á góma.

 

Í máli þingmannanna kom fram, að heildarkostnaðaráætlun þess áfanga sem nú er unnið að við Vestfjarðaveg 60 hljóði upp á 3,5 milljarða króna og hefur 2,2 milljörðum verið varið til verksins á þessu kjörtímabili, nánar tiltekið í leiðina milli Bjarkalundar og Flókalundar. Þar af hafa 1.200 mkr. farið í kaflann Eiði-Kjálkafjörð en á þessu fjárlagaári og því næsta er gert ráð fyrir 1.000 mkr. til viðbótar í verkið.

 

Ólína segir að áherslan á þetta forgangsverkefni haldist í hendur við stefnumörkun Fjórðungssambands Vestfirðinga og kröfu íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum um ásættanlegan láglendisveg sem heilsárstengingu sunnanverðra Vestfjarða við þjóðvegakerfið. Lagaþrætur og málaferli hafa staðið vegna lokaáfanga leiðarinnar um Gufudalssveit, eftir að Hæstiréttur ógilti úrskurð fyrrverandi umhverfisráðherra um vegarlögn um Teigsskóg.

 

Ólína segir að því hafi kapp verið lagt á það undanfarin misseri að leita ásættanlegra leiða sem tryggt geti lausn málsins. Meðal þeirra kosta sem verið er að kanna er svokölluð I-leið, þ.e. þverun Þorskafjarðar og vegur inn með honum austanmegin, eða út með honum og til Reykhóla. Þá er einnig verið að kostnaðarmeta gangagerð undir Hjallaháls.

 

„Framtíð byggðar á Vestfjörðum veltur á því að ofangreindar samgöngubætur nái fram að ganga á allra næstu árum. Atvinnulíf í fjórðungnum á mikið undir þeim komið, ekki síst ferðaþjónustan. Þess vegna er brýnt að Vestfirðingar standi saman allir sem einn um þessar mikilvægu samgönguframkvæmdir og hviki hvergi frá sanngirniskröfunni um að þeim verði lokið innan ásættanlegs tíma,“ segir Ólína Þorvarðardóttir.

 

Athugasemdir

Hjalti, fimmtudagur 25 aprl kl: 18:02

Væri ekki ráð að hætta framkvæmdum á vestfjarðarvegi 60, þeir eru svo gamlir að þeir eiga vel heima á mynjaskrá,,,,Gæti verið túristavænt ;)

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31