Öll sveitarstjórn Reykhólahrepps hættir
Enginn framboðslisti barst vegna sveitarstjórnarkosninganna í Reykhólahreppi 31. maí og verður því óbundin persónukosning eins og verið hefur við margar undanfarnar kosningar. Allir aðalmenn í sveitarstjórn biðjast undan endurkjöri eins og þeir eiga rétt á skv. lögum. Það eru (í stafrófsröð) Andrea Björnsdóttir, Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, Eiríkur Kristjánsson, Gústaf Jökull Ólafsson og Sveinn Ragnarsson. Líka biðst Egill Sigurgeirsson undan kjöri í sveitarstjórn eins og hann á rétt á og gerði einnig fyrir fjórum árum. Hann var í sveitarstjórn frá 2002 til 2010 eða í átta ár samfleytt og á rétt á að biðjast undan kjöri jafnlangan tíma á eftir.
Frestur til að leggja fram framboðslista og jafnframt til að tilkynna að fólk sem á rétt á slíku gefi ekki kost á sér rann út núna á hádegi. Kjörstjórn Reykhólahrepps var á skrifstofu sveitarfélagsins fram til hádegis til að taka á móti framboðslistum eins og auglýst hafði verið, en enginn listi var lagður fram. Myndin var tekin um það bil sem fresturinn rann út.
Hjalti, laugardagur 10 ma kl: 14:33
Nú er það komið á hreint, 100% endurnýjun í sveitsstjórn. Það væri nú skemmtilegt að koma af stað einhverri umræðu hér um væntanlega arftaka, hlera það hvað fólki finnst svonatil gamans.