2. apríl 2011 |
„Önnur sýn“ - lífsstílsátak í Reykhólahreppi
Allir eru velkomnir á fund í matsal Reykhólaskóla á mánudagskvöld kl. 20 þar sem lagðar verða línur í átaki um breyttan lífsstíl hjá fólki í Reykhólahreppi og kannski víðar. „Mér datt í hug að spyrja Atla Georg framkvæmdastjóra Þörungaverksmiðjunnar hvort fyrirtækið vildi taka þátt í svona átaki og jafnvel að gefa hvatningarverðlaun fyrir besta árangurinn. Hann tók mjög vel í það“, segir Sólveig Sigríður Magnúsdóttir á Reykhólum. „Björk Stefánsdóttir slóst í hópinn og við ræddum þetta fram og til baka og ákváðum að byrja strax á mánudagskvöldið. Atli kom með nafn á væntanlegan lífsstílshóp og verður hann kallaður Önnur sýn.“
Að sögn Sólveigar hafa nokkur fyrirtæki í sveitarfélaginu tekið vel í þátttöku. „Látum blómin brosa með okkur í sumar. Við hjá hvatningarsamtökunum Önnur sýn hlökkum til að sjá ykkur hress og kát.“