Opið bréf um ferjusiglingar yfir Breiðafjörð
Stjórn Framfarafélags Flateyjar, hagsmunasamtaka húseigenda í Flatey á Breiðafirði, mótmælir fyrirhugaðri fækkun á ferðum ferjunnar Baldurs. Stjórnin skorar á samgönguyfirvöld að endurskoða niðurskurð á framlögum Vegagerðarinnar til ferjusiglinganna þannig að ekki komi til þess að ferðum fækki í sumar og á næstu árum.
Með nýrri ferju vorið 2006 kom mikill vaxtarkippur í ferðaþjónustu beggja vegna Breiðafjarðar. Á fyrsta heila rekstrarári hins nýja Baldurs fjölgaði farþegum um 36%, bílum um 51% og vörubílum um 90%. Hagsmunir byggðanna norðan og sunnan Breiðafjarðar af þessari samgöngubót eru augljósar en ferjan hefur farið tvær ferðir daglega frá júníbyrjun til ágústloka milli Stykkishólms og Brjánslækjar og eina ferð daglega á öðrum tímum árs. Ferjan hefur einnig haft viðkomu fjórum sinnum á dag í Flatey á sumrin og flutti yfir 13 þúsund farþega til og frá eynni á árinu 2007.
Í samningi Vegagerðarinnar og Sæferða um ferjusiglingar yfir Breiðafjörð eru ákvæði um að styrkir til ferjunnar skuli lækka í áföngum og falla niður í árslok 2009 að frátöldum greiðslum fyrir tvær ferðir á viku út árið 2010.
Því blasir við að styrkir til ferjusiglinga yfir Breiðafjörð verða skertir og ferðum fækkað. Forsendur samningsins á sínum tíma voru að í lok samningstímabilsins, fyrir árið 2009, yrði kominn nýr heilsársvegur um sunnanverða Vestfirði. Enda þótt ljóst sé að svo verður ekki, hafa nú þegar verið felldar niður greiðslur til ferjusiglinganna í samræmi við samninginn. Hafa Sæferðir því ákveðið að fella niður ferðir í byrjun og lok sumars 2008 en þann tíma standa sjálfsaflatekjur ekki undir rekstrarkostnaði. Ef heldur fram sem horfir mun ferðum fækka mjög á næstu 2 árum og framtíð ferjusiglinganna er mjög óviss.
Þessi samdráttur í fjölda ferða er verulegt áhyggjuefni fyrir alla Flateyinga. Á síðustu árum hefur verið lyft Grettistaki í uppbyggingu og endurnýjun húsa í Flatey. Hús þessi eru nýtt allt árið af stórum hópi fólks auk þess sem mikil aukning hefur orðið í ferðatengdri þjónustu. Forsenda blómlegs mannlífs í Flatey og eyjanna í kring eru ferjusiglingar Baldurs yfir Breiðafjörð.
Fyrirtæki í Vesturbyggð hafa nýtt sér góða þjónustu ferjunnar um áraraðir til að koma fiskafurðum á markað erlendis og þar með skapað umtalsverðar gjaldeyristekjur fyrir byggðarlag sitt. Fyrirhuguð fækkun á ferðum Baldurs setur þennan útflutning í uppnám og er því enn eitt óheillasporið í byggðarþróun Vestfjarða. Flateyingar óttast að þessi skerðing á þjónustu Baldurs við Flatey muni leiða það sama yfir eyna.
Stjórn Framfarafélagsins skorar því á samgönguráðherra og þingmenn Norðurlands vestra að beita sér af alefli til að tryggja óbreyttar ferjusiglingar yfir Breiðafjörð.
Fyrir hönd stjórnar Framfarafélags Flateyjar
Bryndís Þórðardóttir, formaður
Sími: 897 9752
Netfang: bryndit@hi.is