Opin kynning í lok námskeiðs á Reykhólum
Vettvangsnámskeiði Háskólaseturs Vestfjarða, sem staðið hefur á Reykhólum í tæpa viku, lýkur með kynningu nýsköpunarverkefna í Reykhólaskóla í fyrramálið, að morgni skírdags. Hún hefst klukkan níu og er öllum opin. Orðið vettvangsnámskeið merkir að farið er út úr skólastofunni, út á vettvang, þangað sem hlutirnir gerast. „Þegar um er að ræða skurð og vinnslu þörunga á Íslandi eru Reykhólar höfuðborgin,“ segir dr. Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, sem kallar staðinn „paradís þangs og þara“.
„Hér er stóra þörungaverksmiðjan, sem nemendur á námskeiðinu sóttu heim strax fyrsta daginn, en hér eru líka smærri og nýrri fyrirtæki, sem vinna úr þörungum bæði fæðubótarefni og gróðuráburð,“ segir hann. Svo var Norðursalt heimsótt, sem nýtir líka bæði hafið og heita vatnið.“
Kennararnir á námskeiðinu voru tveir, dr. Peter Krost, sem hefur áður kennt á námskeiði í fiskeldi hjá Háskólasetrinu og rekur þararæktun í Eystrasalti, og María Maack líffræðingur, sem hefur mikla reynslu úr nýsköpunarfyrirtæki, en hún er búsett á Reykhólum. Námskeiðið var styrkt af Sóknaráætlun landshluta.
Á þessu vettvangsnámskeiði í Reykhólasveit var þó ekki bara verið að skoða, heldur þurftu nemendur að vinna viðskiptaáætlun fyrir verkefni að eigin vali. Þar var t.d. fengist við að stofna veitingahús sem sérhæfir sig í því að selja þörungarétti og framleiða algidella ofan á brauð, meðan annar gerði viðskiptaáætlun fyrir baðferðamennsku sem tengir sjóböð og köfun í þaraskógum við afslöppun í heitum pottum.
„Útvistun til Reykhóla á hluta framleiðslu sem til er nú þegar er kannski það raunhæfasta. Framleiðsla vistvænna blekhylkja þar sem blekið væri unnið úr þangi væri kannski það brjálaðasta,“ segir dr. Peter Weiss.
„Sumir nemendurnir komu sérstaklega til Reykhóla til að sækja þetta námskeið en aðrir eru nemendur í strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða,“ segir María Maack, annar kennaranna á námskeiðinu. „Fyrirtækin hafa verið sérlega gestrisin og leyft nemendum að spyrja út í hvað eina sem snýr að rekstri,“ segir hún.
Eins og Peter Weiss sagði voru nemendurnir að æfa það hvernig staðið er að stofnun fyrirtækja og hafa þeir haft aðstæður á Vestfjörðum sem fyrirmynd. Í síðustu viku voru aðrir nemendur á Tálknafirði á sams konar námskeiði um fiskeldi, og reyndar blöndu af fiskeldi, skeljaeldi og þörungaeldi, til að finna leiðir til að draga úr þeirri lífrænu mengun sem getur fylgt sjókvíaeldi.
Nemendurnir á Reykhólum voru sjö og af fimm þjóðernum. Myndin af hópnum sem hér fylgir var tekin í sólarblíðu við Reykhólaskóla í gær. Þar eru, talið frá vinstri: Þóra hjá Urta Islandica, Peter Krost frá Kiel í Þýskalandi, kennari í fisk- og þörungaeldi, Sigurður hjá Urta Islandica, Anas frá Marokkó, María Maack, kennari um notkun þörunga og græna hagkerfið, Valeri frá Tansaníu, Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, Mejke og Sara frá Þýskalandi og Annekke frá Namibíu.
Sjá einnig:
31.03.2015 ► Eins og búðin hafi verið opnuð fyrir þetta námskeið
18.02.2015 ► Hvaða námskeið vill fólk í héraðinu helst fá?
► Hér má lesa ítarlegt viðtal við dr. Peter Weiss, uppruna hans, ævi og störf (BB 2009, pdf).