Tenglar

17. september 2013 | vefstjori@reykholar.is

Opinber heimsókn forsetans í Reykhólahreppi

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Dagskrá opinberrar heimsóknar Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands í Reykhólahreppi hefst kl. 13 í dag þegar sveitarstjórn og sveitarstjóri taka á móti honum í Bjarkalundi og snæða með honum hádegisverð þar á hótelinu. Síðdegis heimsækir forsetinn Reykhólaskóla, Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð og Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum. Loks opnar hann formlega saltvinnslu Norður & Co við höfnina og situr þar veislu þangað sem fyrirtækið býður öllum íbúum Reykhólahrepps.

 

Af þessu tilefni verður kynning á ýmsum nýsköpunarverkefnum í Reykhólahreppi í húsakynnum saltvinnslunnar.

 

Eftir móttökuna í Bjarkalundi heldur forsetinn á Reykhóla og kemur í skólann um kl. 14.15. Í Barmahlíð kemur hann um kl. 15.15 og drekkur þar síðdegiskaffi með heimilisfólkinu áður en haldið verður á Báta- og hlunnindasýninguna. Kl. 17 hefst opnunarhófið í saltvinnslunni þar sem forsetinn verður heiðursgestur.

 

Þetta er í annað skiptið sem Ólafur Ragnar Grímsson kemur í opinbera heimsókn í Reykhólahrepp í forsetatíð sinni.

 

 

Heimsókn forsetahjónanna árið 1996

 

Reykhólahreppur var fyrsti viðkomustaðurinn í opinberri heimsókn Ólafs Ragnars og Guðrúnar Katrínar heitinnar í Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu 20.-22. september 1996. Ólafur hafði þá tekið við embætti skömmu áður eða hinn 1. ágúst.

 

Forsetahjónin og fylgdarlið þeirra komu með flugvél vestur á Reykhóla síðdegis föstudaginn 20. september. Byrjað var á því að skoða Þörungaverksmiðjuna og síðan var Dvalarheimilið Barmahlíð heimsótt áður en framkvæmdir við þverun Gilsfjarðar voru skoðaðar. Síðan var farið að minnismerkinu um þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson á fæðingarstað hans í Skógum í Þorskafirði.

 

Heimsókn forsetahjónanna í Reykhólahrepp þennan septemberdag árið 1996 lauk með móttöku og veitingum í Bjarkalundi áður en ekið var um misjafna og minnisstæða vegi vestur í Flókalund þar sem forsetahjónin gistu um nóttina.

 

Í Morgunblaðinu tveim dögum áður eða hinn 18. september var greint frá væntanlegri heimsókn forsetahjónanna. Niðurlagsorð fréttarinnar eru þessi: Sýslumaðurinn á Patreksfirði bendir þeim, sem áhuga hafa á að fylgjast með heimsókninni, að vera á vel búnum bílum, vegna ástands vega í sýslunni.

 

Sjá einnig:

Boðsbréf til íbúa Reykhólahrepps

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31