„Öreigaslippurinn“ í Reykhólahöfn kominn í gagnið
Nota þarf stórstraumsflæðar til að koma bátunum upp. Þá er hægt að vinna við þá á fjörunni og þeir standa jafnvel alveg á þurru um smástraum, vel skorðaðir með staurum og keðjum.
Knolli BA-8, sem er 21 tonn og 14,5 metra langur, fór upp á flæðinni um morguninn og stóð á þurru síðdegis. Þó að flæðin hefði ekki mátt vera minni tókst þetta með aðstoð frá stóru gröfunni hans Brynjólfs verktaka.
Eigandi Knolla er Jón Ingiberg Bergsveinsson frá Gróustöðum. Ætlunin er að mála hann á smástraumnum og taka hann síðan niður aftur á stórstreymi eftir mánaðamót. Þá á Fjóla BA-150, sem er 28 tonn og 17 metra löng, að fara upp í bolskoðun og helst strax niður aftur. Fjóla er í eigu Jóhannesar Haraldssonar.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á „vígsludaginn“ sumardaginn fyrsta sem jafnframt var skírdagur, annars vegar á flæðinni um morguninn og hins vegar á fjörunni síðdegis þegar báturinn var kominn á þurrt, og sýna mannvirkið og aðstöðuna vel.