22. janúar 2016 |
Örn skipstjóri sparar líklega tvo tanka á ári
Um áramótin strengdi Inga nýársheit: Hún ætlar að skilja skrjóðinn eftir heima og ganga í vinnuna. Hún fær um 30 mínútna leikfimi daglega. Og bíltonnið hennar eyðir þar með ekki bensíni þann daginn. Inga sefur betur, börnin á leikskólanum fá betra loft og við hin getum notið betur þagnar og náttúruhljóða.
- Ef ég fer á Landkrúser tíu ferðir á viku að heiman og upp á hrepp, þá eru það ekki nema einn og hálfur lítri á viku og um 280 krónur sem sparast. En fyrir allt árið spara ég um einn tank. Örn skipstjóri sparar líklega tvo tanka á ári. Hann gengur daglega niður í Karlsey. Hjá okkur þremur mun sparast hátt í tonn af koltvísýringi sem sæti ella í andrúmsloftinu næstu hundrað ár. Þetta má sjá á reiknivélum Orkuseturs.
- Ég ætla hér með að ánafna börnunum í leikskólanum þessi koltvísýrings-kíló og halda áfram að slást í för með Ingu. Vona að við sjáumst á röltinu, rjóð í kinnum.
Þetta segir María Maack líffræðingur á Reykhólum meðal annars í pistli á undirsíðunni sinni hér á vefnum, Skot Soffíu frænku. Smellið hér eða á tengilinn í dálkinum hægra megin til að fara inn á síðuna.