Óskað eftir diskum með suðuramerískum takti
Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir hefur um árabil stýrt leikfimihópi í íþróttahúsinu á Reykhólum síðdegis á mánudögum og miðvikudögum. Hópurinn er kappsamur í tímum og þar hittast ungir og yngri í anda til að hita upp, styrkja sig og teygja í klukkutíma í senn. Núna verður breyting á um nokkurt skeið, því að María Maack tekur við að leiða hópinn og um leið breytist mætingartíminn frá 16.15 til 16.30.
María mun leiða hópinn gegnum æfingar sem fara gætilega með bak, hné og háls. Lagt verður upp úr liðkun og styrkingu frá miðju á rólegan og yfirvegaðan hátt. Teygjur miðast einnig við að hlífa hryggjarliðum, segir í tilkynningu.
Ef iðkendur leikfimi ættu nú einhverja tónlistardiska með suðuramerískum takti væri vel þegið að fá þá til spilunar í tímum. Munið: Hálffimm á mánudögum og miðvikudögum í tvær-þrjár vikur frá og með næsta mánudegi, 24. nóvember.