Tenglar

29. desember 2015 |

Ótrúlegt hvað „bara“ takk getur gert mikið

Bragi á markaðinum á Reykhólum 2013.
Bragi á markaðinum á Reykhólum 2013.
1 af 3

Þó að bráðungur sé er Bragi Jónsson frá Reykhólum formaður Hjálparsveitar skáta í Hveragerði, sem hann hefur starfað með síðustu árin. Aðspurður segist hann hafa „álpast“ til að bjóða sig fram til formennsku fyrir rúmu ári. Í sex ár og þangað til fyrir tveimur árum (2008-2013) annaðist hann flugeldasöluna hjá Björgunarsveitinni Heimamönnum og sá um flugeldasýninguna við áramótabrennuna á Reykhólum. Eftir að hann fluttist suður kom hann gagngert vestur þeirra erinda. Fyrst kom hann að flugeldasölunni á Reykhólum fyrir ellefu árum, þegar hann var sextán ára.

 

Pistilinn hér fyrir neðan birti Bragi á Facebook-síðu sinni í gær. Þetta er í rauninni dæmisaga um starfið hjá fólki í björgunarsveitum um land allt.

 

Mynd nr. 2 sem hér fylgir er myndin sem Bragi nefnir í lok pistilsins. Þar getur að líta flugeldamarkað Hjálparsveitar skáta í Hveragerði.

 

Hér kemur frásögn Braga á Facebook í gær.

 

____________________________

 

 

Það er jóladagur og ég staddur í Reykjavík ásamt fjölskyldunni að njóta jólanna, mikil rólegheit og góð afslöppun sem hefur verið langþráð. Á morgun ætla ég að eiga rólegan dag með fjölskyldunni og mæta í jólaboð þar sem við munum afhenda þriggja ára frænku minni jólagjafirnar. Njóta á jólanna á þann hátt, vera með fjölskyldunni og gleðja krakkana.

 

Venju samkvæmt er vakað frameftir, klukkan að detta í 4 og ég ákveð að skríða upp í, stuttu seinna fæ ég sms, hver er að senda mér sms eiginlega? Fæ sms í hinn símann líka, það boðar ekki gott. Útkall F2, leit að manni við Ölfusá. Án þess að hika stekk ég á lappir, stekk út í bíl og legg af stað austur. Á meðan ég græja mig út úr húsinu athuga ég með mætingu, 65 ára maður og 30 ára fjölskyldumaður hafa gert það sama, stokkið af stað um leið og sms barst. Við brunum af stað og leitum fram á morgun ásamt 50 öðrum við erfiðar aðstæður.

 

Farið er heim, ėg legg mig í sófanum í hjálparsveitarhúsinu, áframhaldandi leit á morgun, annan í jólum. 120 manns taka þátt í þeirri lotu og rúmlega 100 manns á 3ja degi jóla.

 

Þegar ég kom heim eftir leitina fékk ég að heyra það að litla frænka mín var yfir sig ánægð með stóra minions bangsann sem ég gaf henni og lét hann ekki frá sér. Það var gaman að heyra, og eflaust voru fleiri í sömu stöðu og ég, að hafa farið frá fjölskyldu og börnum. Björgunarsveitir voru kallaðar út um allt land yfir jólin, meira að segja klukkan 18 á aðfangadag. Alltaf fór fólk af stað til að aðstoða samborgara sína í hvers kyns aðstæðum. Aðstoða sjúkrabíla, fastir bílar, bílvelta, flóð, foktjón, leitir og veikindi eru allt verkefni sem björgunarsveitir hafa glímt við yfir jólin. Þegar sms-in berast þá leggur þetta venjulega fjölskyldufólk margt til hliðar svo það getið aðstoðað náungann sem í vanda er.

 

Allt árið um kring er þetta sama fólk í stakk búið víðsvegar um landið að aðstoða samborgarana. Ekki einu sinni á ári, ekki einu sinni í mánuði, heldur nær einu sinni í viku að meðaltali, og í mörgum tilfellum oftar eru sveitir kallaðar út, sveitir sem eru fullar af fjölskyldufólki í fullri vinnu. Eftir langar aðgerðir þurfum við ekki nema eitt lítið takk, sem oftar en ekki er mjög stórt takk. Ótrúlegt hvað „bara“ takk getur gert mikið.

 

Við biðjum ekki um neitt, bara að þegar við förum heim þá sé fólk ánægt með það sem við gerðum.

 

Til að láta svona starfsemi ganga upp þarf mikið fjármagn, rekstur bíla, báta, vélsleða, snjóbíla og fjórhjóla er mjög dýr, eins menntun, búnaður og húsnæði, allt kostar þetta peninga og fjármagnað að stórum hluta með sölu á flugeldum. Ef þú ert að íhuga kaup á flugeldum, komdu þá á næsta flugeldamarkað björgunarsveita og leyfðu okkur að segja takk við þig, það margborgar sig.

 

Ég er stoltur félagi á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og mun vera það áfram eins lengi og ég mögulega get. Vonandi verða það ótalmörg „takk“ sem ég mun hljóta að launum.

 

Á myndinni má svo sjá tvo einstaklinga, annar hefur staðið vaktina í rúm 40 ár, hinn mun líklega standa vaktina næstu 40 :)

 

____________________________

 

Sjá einnig:

28.12.2015  Upplýsingar um flugeldamarkað björgunarsveitarinnar Heimamanna 2015

30.12.2013  Á flugeldamarkaði Heimamanna í Reykhólahreppi fyrir tveimur árum

 

Athugasemdir

Bergsveinn G Reynisson, mivikudagur 30 desember kl: 19:46

Takk! Bragi.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31