Tenglar

27. júlí 2016 |

Ótrúlegur fjöldi mætti á uppboðið á Seljanesi

Gestirnir á uppboðinu á Seljanesi á laugardag, sem var einhver sérstæðasti viðburður Reykhóladaga fyrr og síðar, skiptu hundruðum. Sjá má á loftmyndum sem hér fylgja, að bílar á Seljanesi meðan á uppboðinu stóð voru á annað hundrað. Inn komu yfir 700 þúsund krónur, sem renna til Umhyggju, félags langveikra barna. Ágúst Ragnar Magnússon stóð að mestu fyrir þessu framtaki með öflun uppboðsmuna og skipulagningu, með aðstoð bræðra sinna og góðum stuðningi foreldranna, Magnúsar og Dagnýjar á Seljanesi. Þórir Ingvarsson var jafnframt þeirra stoð og stytta. Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga lagði sitt af mörkum til uppboðsins.

 

„Þessi frumraun okkar virtist hitta í mark og líklega verður þetta stærra að ári ef áhugi verður fyrir því,“ segir hinn skeggprúði Jóhann Vívill Magnússon, einn Seljanesbræðra. „Helgin hérna fyrir vestan var ómetanleg, ég hitti mikið af frábæru fólki og náði gera mig sjálfan að fífli, sem ég hef nú reyndar dálítið gaman af.“

 

Meðan á uppboðinu stóð var boðið upp á súpu og öl og spilað og sungið. Jafnframt fengu gestir staup af ákveðinni vodkategund í kynningarskyni. Uppboðsstjóri var Tjörvi Geir Jónsson.

 

„Mætingin var geysilega góð og þetta gekk allt mjög vel fyrir sig,“ segir Dagný Stefánsdóttir á Seljanesi.

 

Ýmsir tóku myndirnar sem hér fylgja. Úr því að minnst var á skeggprýði, þá fljóta hér með til gamans þrjár myndir af Jóhanni (síðustu myndirnar í röðinni) sem teknar voru á dráttarvélarallinu á Reykhólum fyrr þennan sama dag. Á tveimur þeirra er hann við stýrið á þýskum Lanz Alldog, einum sérkennilegasta forntraktor í Reykhólahreppi og þó víðar væri leitað. Á síðustu myndinni er hann með sjálfustöng (selfie-stöng), eigin hönnun, sem telja má nokkuð vel viðeigandi hjá manni sem er fæddur og uppalinn í sveit.

 

Uppboðið mikla á Seljanesi: Ýmislegt grunsamlegt (hér má meðal annars sjá lista yfir styrktaraðila).

 

Athugasemdir

Hafsteinn Már, mivikudagur 27 jl kl: 18:47

"sjálfustöng" eða (selfie-stick) væri ekki frábært að nýta eitt mjög gott íslenskt orð yfir þetta sem við eigum nú þegar.
Kjánaprik er frábært orð yfir þetta fyrirbæri.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30