Tenglar

3. október 2015 |

Óttast ofnýtingu þörunga í Breiðafirði

Tvö fyrirtæki til viðbótar við Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum hafa byrjað eða fyrirhuga að hefja umtalsverða vinnslu þörunga úr Breiðafirði, en engar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvað sjávarnytjar af þessu tagi þola. Ítarlega er fjallað um þetta mál í síðustu tölublöðum Fiskifrétta. Stjórnendur Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum óttast að verksmiðjan missi lífræna vottun sína, sem m.a. byggir á því að þang og þari í firðinum séu nýtt með sjálfbærum hætti. Finnur Árnason framkvæmdastjóri segir blikur á lofti.

 

„Stefna í nýtingu fiskistofna miðast við að hámarka afrakstur til langs tíma. Það sama hlýtur að eiga að gilda um annað sjávarfang. Beri sjávargróður í Breiðafirði meiri nýtingu finnst okkur að megi auka hana. En á meðan engin vissa er fyrir því, þá finnst mér ekki sjálfgefið að nýir aðilar hefji nýtingu eins og ekkert sé sjálfsagðara,“ segir Finnur meðal annars í samtali við Fiskifréttir núna í fyrradag.

 

Fram kom í blaðinu viku áður að Félagsbúið Miðhraun á Snæfellsnesi hefur þegar hafið vinnslu á um 7.000 tonnum af þara og þangi úr Breiðafirðinum og fyrirtækið Deltagen ehf. áformar að reisa allt að 50.000 tonna verksmiðju í Stykkishólmi. Deltagen er í eigu írska fyrirtækisins Marigot.

 

Komið að endurnýjun og frekari uppbyggingu verksmiðjunnar

 

Finnur Árnason segir að góður gangur sé í rekstri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum. Hún hafi komist í gegnum ýmsa erfiðleika á liðnum áratugum og núna sé komið að endurnýjun og uppbyggingu á verksmiðjunni. Þar sé meðal annars horft til framleiðslu á fjölbreyttari afurðum en áður. Endurbætur muni leiða til aukinnar nýtingar á hráefni og meiri afkastagetu, sem líklega fari úr um 20.000 tonnum í 25.000 tonn á ári.

 

„Við erum með lífræna vottun á okkar afurðum. Vottunin gengur að hluta til út á það að við sýnum fram á að gróðurinn vex hraðar en sem nemur því sem við sláum og vegna náttúrulegra affalla. Þetta er sem sagt sjálfbær nýting á þeim svæðum sem eru nýtanleg – þar sem hægt er að koma sláttutækjum við,“ segir hann.

 

„Það vex sem sagt meira en við tökum og veðrast í burtu. Það er reyndar talið að meira veðrist í burtu en er slegið. Vottunin snýst einnig um hreinleika sjávar og afurða. Stefna hjá verksmiðjunni byggðist í upphafi á rannsóknum þess tíma og mati hverju sinni. En í upphafi okkar starfsemi var sú ákvörðun tekin, að hvert svæði yrði einungis slegið fimmta hvert ár og stundum sjaldnar. Við höfum fylgt þessari nýtingarstefnu í 40 ár og það er ekkert sem bendir til þess að við séum að ofnýta stofnana. Okkar mat er hins vegar það, að uppskeranleg svæði af klóþangi þola ekki mikið meiri nýtingu.“

 

Lífræn vottun og stöðugt aðgengi að hráefnum forsendur fyrir rekstri

 

Finnur segir það blasa við að rannsóknir þurfi að fara fram í Breiðafirðinum áður en nýtingin verði stóraukin, eins og áform eru um. „Ákvarðanir stjórnvalda um nýtingu á fiskistofnum grundvallast á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, sem hefur rannsakað fiskistofnana áratugum saman. Það er varla minnst á þang og þara í lögum og reglugerðum, en þessi iðnaður hefur getað séð um að laga sig að afkastagetu auðlindarinnar á meðan aðeins einn aðili hefur staðið að nýtingunni. Það má hreinlega ekki gerast að hið opinbera horfi aðgerðalaust á aukna nýtingu án þess að rannsóknir á þoli stofna liggi fyrir.“

 

Hann segir að Þörungaverksmiðjan sé burðarás í atvinnulífi á Reykhólum. Lífræn vottun og stöðugt aðgengi að hráefnum séu forsendur fyrir rekstri. „Ef þeim er raskað til dæmis vegna ofnýtingar er viðbúið að við missum mjög stóra og mikilvæga markaði fyrir okkar afurðir. Markaði sem hafa verið í uppbyggingu áratugum saman,“ segir Finnur Árnason framkvæmdastjóri.

 

Segir rannsóknir nauðsynlegar í ljósi áforma um stóraukna þörungatekju

 

Karl Gunnarsson, þörungasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir meðal annars í sama tölublaði Fiskifrétta, að það hafi verið áætlað að rúmlega helmingur af fjöruflatarmáli landsins sé í Breiðafirði. Hann segir að í ljósi fyrirhugaðrar byggingar 50.000 tonna verksmiðju í Stykkishólmi þurfi að hrinda af stað rannsóknum.

 

„Það þarf að meta heildarmagnið, endurvöxt og hvernig þau tæki sem notuð eru til að afla fari með stofnana. Einnig þarf að leggja mat á það hvaða áhrif þessi svæði hafa fyrir aðrar lífverur sjávarins, því þar á milli er samspil. Það er vitað að seiði nýta sjávargróðurinn sem skjól. Þetta þarf allt saman að meta og taka tillit til,“ segir Karl.

 

Allt að 50.000 tonna verksmiðja rís í Stykkishólmi og önnur risin á Miðhrauni

 

Þannig er fyrirsögn fréttar og fréttaskýringar í Fiskifréttum viku áður, sem hefst á þessa leið:

 

„Útlit er fyrir að vinnsla á þangi og þara í Breiðafirði aukist stórlega á næstu misserum. Nú þegar vinnur Þörungaverksmiðjan á Reykhólum um 15-20.000 tonn af þangi á ári og og um 5.000 tonn af þara. Þá fyrirhugar fyrirtækið Deltagen ehf. að reisa allt að 50.000 tonna verksmiðju í Skipavík í Stykkishólmi, sem yrði að stærstum hluta í eigu írska fyrirtækisins Marigot. Loks hefur Félagsbúið Miðhraun hafið vinnslu á þangi og þara.

 

Á sama tíma og þessu vindur fram hefur hið opinbera ekki sett fram nýtingarstefnu á þang- og þarategundum. Auk þess gerir Þörungaverksmiðjan á Reykhólum alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaða stóraukna ásókn í þang og þara í Breiðafirði.

 

Stórtækustu áformin á þessu sviði er óneitanlega fyrirhuguð verksmiðja í Skipavík í Stykkishólmi. Til verkefnisins er stofnað af írska fyrirtækinu Marigot Ltd., sem á Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal, og Matís ohf. Saman hafa þessir aðilar stofnað fyrirtækið Deltagen Iceland ehf., sem áætlar að reisa verksmiðjuna í Stykkishólmi. Gangi áætlanir eftir má gera ráð fyrir að starfsemi Deltagen Iceland með 15 nýjum heilsársstörfum hefjist á síðari hluta árs 2016.“

 

Málið í skipulagsferli hjá Stykkishólmsbæ

 

Í sama tölublaði er rætt við Einar Svein Ólafsson, framkvæmdastjóra Íslenska kalkþörungafélagsins, og segir hann málið í skipulagsferli hjá sveitarfélaginu. Hann segir að vinnsluleyfi af þessari stærðargráðu sé einnig í umsóknarferli, en hann segir að þess sé vænst að framkvæmdir við byggingu nýju verksmiðjunnar geti hafist næsta sumar.

 

„Við ráðgerum að geta hafið framleiðsluna svo hálfu ári síðar. Fyrst ætlum við að koma verkefninu af stað og sjá til hvernig gengur, þannig að ekki er kannski rétt að nefna neinar tölur um framleiðslumagn á þessu stigi,“ segir Einar Sveinn.

 

Hann segir að úrlausnarefnið nú sé það að engin nýtingarstefna hafi verið mótuð á þessu sviði af hinu opinbera. Öll líkindi séu á því að vinnsla á þangi og þara aukist verulega í Breiðafirði með tilkomu nýrra aðila inn á þennan markað. En að sjálfsögðu sé stefnt að sjálfbærri nýtingu.

 

Byrjað verður á hefðbundinni vinnslu úr þara og þangi, sem felst í því að vinna afurðir eins og fljótandi þykkni, og restin fer síðan í mjöl til frekari áframvinnslu. En síðan er ráðgert að þróa nýja vöru sem er ekki á markaðnum. Fyrirtækið ætlar að hámarka verðmæti afurðanna með meiri fullvinnslu.

 

„Við ætlum að draga út ýmis efni úr þangi og þara sem við seljum sérstaklega,“ segir Einar Sveinn. Þessi efni eru ýmis gúmmíefni sem henta vel til áframvinnslu í allskyns iðnaði, svo sem matvæla-, snyrtivöru-, lyfja- og textíliðnað.

 

Félagsbúið Miðhraun komið með verksmiðju og skip

 

Bryndís Hulda Guðmundsdóttir, forstjóri Félagsbúsins Miðhrauns, segir verkefnið að rúlla af stað. Búið hefur keypt 70 tonna skip frá Hollandi, Þangbrand I, sem var einmitt nýkominn úr sinni fyrstu ferð eftir þangi þegar rætt var við Bryndísi.

 

„Við stefnum að því að vinna um 7 þúsund tonn af stórþara og beltisþara í fyrsta áfanga. Við höfum ekki ákveðið hvað við vinnum mikið af klóþangi enda er starfsemin rétt að hefjast. Við höfum sett upp þurrkverksmiðju hérna á staðnum með færibandaþurrkara. Við hefjum starfsemina með því að þurrka þangið og mala það og selja það þannig. En á næstu tveimur árum stefnum við að því að setja upp alginatverksmiðju til að fullvinna þangið. Það er okkar markmið.“

 

Frumframleiðslan er hrávara sem er unnin áfram í lyf, matvörur, áburð, dýrafóður og margt annað. Framleiðslan verður því í fyrstunni svipuð og er núna hjá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum. Undirbúningur að vinnslunni hefur staðið síðastliðin þrjú ár á Miðhrauni.

 

Bryndís Hulda segir að áætlað sé að 30-40 störf verði til þegar verksmiðja til fullvinnslu verður komin af stað. Þá sé miðað við starfsmenn við slátt, þurrkun og í alginat-verksmiðjunni. Sérmenntað háskólafólk muni annast hluta starfanna í verksmiðjunni og þannig sé útlit fyrir að hálaunastörf verði til með starfseminni.

 

Ráðuneytið hefur kallað eftir upplýsingum

 

Í sama tölublaði Fiskifrétta segir Arnór Snæbjörnsson, lögfræðingur hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, að ráðuneytinu hafi verið kynnt, að nokkru, áform frá téðum aðilum um vinnslu á þangi og þara í Breiðafirði. Ráðuneytið hefur kallað eftir nánari upplýsingum frá þeim af þessu tilefni.

 

„Þetta hefur orðið til þess að ráðuneytið, í samráði við Hafrannsóknastofnun, hefur kannað hvort ástæða sé til að setja nýjar reglur um þessa nýtingu, m.a um leyfisbindingu hennar, til að tryggja sjálfbærni, en engin ákvörðun hefur verið tekin þar að lútandi á þessu stigi. Ekki liggja heldur fyrir heildstæðar upplýsingar um það nýtanlega magn sem horft er til, en ljóst virðist, sé horft á fyrirætlanir aðila, að um verulega aukningu kynni að vera að ræða frá því sem nú er,“ segir Arnór.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31