Óttast samkeppni við ódýrt hormónakjöt
Breskir bændur hafa áhyggjur af því, að verði af fríverslunarsamningi milli Bretlands og Bandaríkjanna muni ódýrt bandarískt hormónakjöt flæða inn á breskan markað. Enn er ekki búið að semja um heimildir til innflutnings landbúnaðarvara frá Bandaríkjunum til Bretlands, en bresku bændasamtökin óttast verulega að þarlendum landbúnaði verði fórnað á altari samningaviðræðna milli landanna.
Í Bandaríkjunum er leyfilegt að nota hormóna við framleiðslu á nautakjöti og mjólk en slíkt er óheimilt í allri Evrópu. Þá hafa bresku bændasamtökin jafnframt bent á, að auk þess sem munur sé á framleiðslukostnaði á milli landanna vegna hormónanna séu opinberar kröfur í Bretlandi um aðbúnað, umhverfismál og dýravelferð mun strangari en opinberar kröfur í Bandaríkjunum. Það valdi enn meiri mun á framleiðslukostnaði, sem geri samkeppnisstöðu breskra bænda mjög erfiða.
Þetta kemur fram hér á vef Landssambands kúabænda.