Óvenjuleg sjávarhæð og magnaðar myndir
Þessa dagana er mjög stórstreymt, eins og sjá má á myndunum frá Staðarhöfn á Reykjanesi í Reykhólasveit sem hér fylgja. Á annarri þeirra, sem Ása Björg Stefánsdóttir í Árbæ tók á níunda tímanum í gærkvöldi, má sjá sjávarhæðina og hvernig sjórinn spýtist upp gegnum bryggjugólfið þegar aldan ríður undir. Litli flotpallurinn (flotbryggjan) með göngubrúnni fylgir sjávarhæðinni og á myndinni er liggur hann hærra en sjálf bryggjan. Ásamt stórstreyminu hefur áhlaðandi væntanlega haft sín áhrif á sjávarstöðuna, en þarna var þéttingsvindur af suðvestri eða beint á land.
Til glöggvunar á sjávarhæðinni og til samanburðar er hér líka önnur mynd frá Ásu (nr. 2), tekin á háfjöru á sínum tíma. Þar liggur bátur þeirra Þórðar og Ásu í Árbæ við litlu flotbryggjuna. Þriðja myndin er samsett úr þessum tveimur, skornum á hæðina, þannig að sjá má muninn í einni sjónhendingu.
Hér má sjá fleiri magnaðar myndir frá sjávargangi við Reykhólahöfn og Staðarhöfn.