Óvissa um framtíð Vaxtarsamnings Vestfjarða
Vaxtarsamningur Vestfjarða er nú á tímamótum og í samningaviðræðum um endurnýjun. Óvissa ríkir um framtíð samningsins eins og víðast hvar annars staðar miðað við núverandi efnahagsástand, segir í tilkynningu frá Neil Shiran Þórissyni framkvæmdastjóra. Vonir standa þó til þess að hægt verði að endurnýja samninginn til eins árs og framlengja hann síðan til lengri tíma í lok þessa árs. Viðræður eru hafnar við iðnaðarráðuneytið og er áætlað að hægt verði að kynna niðurstöður þeirra í næsta mánuði.
Á síðustu þremur árum hefur Vaxtarsamningur Vestfjarða styrkt um 50 verkefni beint. Þau hafa verið á sviði sjávarútvegs, matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, menningar, menntunar, nýsköpunar og rannsókna.
Til viðbótar við beina styrki í ákveðin verkefni hefur Vaxtarsamningur Vestfjarða unnið markvisst að rannsóknum og greiningum á þróunar- og nýsköpunarverkefnum í samstarfi við fagaðila. Sumar rannsóknir hafa leitt af sér niðurstöður og viðskiptatækifæri sem verið er að skoða frekar og gert verður grein fyrir á komandi mánuðum, segir í tilkynningunni. Þessa vinnu hefur Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða lagt fram sem framkvæmdaraðili samningsins.
Hér fer á eftir skrá yfir þau verkefn sem Vaxtarsamningur Vestfjarða hefur styrkt frá upphafi og fram að þessu.
Verkefni 2006
- Þjóðtrúarstofa.
- Sjávarútvegsklasi.
- Úttekt á samstarfsmöguleikum á Austur-Grænlandi.
- Námskeið í sýningagerð.
- Vöruþróunarátak og námskeið 2006.
- Þróun á þátttökutengdri ferðamennsku - sjóstangaveiði.
- Sýning í Perlunni.
Verkefni 2007
- Uppbygging þekkingar- og þróunarsetra.
- Þróun á vörumerki fyrir afurðir svæðisins.
- Kræklingarækt.
- Þróun á þátttökutengdri ferðamennsku - sjóstangveiði.
- Háskóli Unga fólksins.
- Dreifnám.
- Þróun og samstarf aðila varðandi fuglaskoðun og ferðaþjónustu tengda henni.
- Þróun minjagripa og handverk.
- Netmarkaðssetning - námskeið.
- Meistaranám - úttekt.
- Fiskvinnsluskóli -úttekt.
- Efling fjarkennslu.
- Staðbundinn ferðaþjónustuklasi á Ströndum.
- Skíða- og vetrarferðamennska - úttekt og greining.
- Samstarfsverkefni ferðaþjóna á Flateyri.
- Samstarfsverkefni ferðaþjóna á Suðurfjörðum og Vesturlandi.
- Úttekt á möguleikum á loftslagsrannsóknamiðstöð.
- Myndun á virku tengslaneti athafnakvenna.
Verkefni 2008
- Greining raforkuinnkaupa sjávarútvegsklasa.
- Fóður og fjör - átak veitingastaða á landsbyggðinni.
- Útgáfa safnabæklings.
- Markaðsrannsóknir fyrir ferðaþjónustu.
- Ímyndarverkefni fyrir norðanverða Vestfirði.
- Matarþing á Ísafirði - matartengd ferðaþjónusta.
- Matarþing á Patreksfirði - matartengd ferðaþjónusta.
- Fuglaskoðun - frekari þróun á ferðum fyrir erlenda ferðamenn.
- Uppbygging vörumerkis fyrir sjávarafurðir.
- Ren Ren - evrópskt samstarfsverkefni varðandi orkuframleiðslu jaðarsvæða.
- Þróun á afþreyingu fyrir ferðamenn.
- Frumkvöðlasetur - stuðningur við nýsköpun.
- Nýsköpunarkeppni Vestfjarða.
- Sjávartengd ferðaþjónusta - forverkefni þar sem sótt verður um Evrópustyrki.
- Uppbygging þróunar- og þekkingarsetra.
- Stuðningur við myndun samstarfsnets á sviði þorskeldis.
- Open Days - tengslanet og evrópsk samstarfsverkefni.
- Samstarfsverkefni um þróun á nýrri afurð úr kalkþörungi.
- Haggreiningar og haglýsingar fyrir Vestfirði - atvinnulífsgreiningar.
- Skýrsla verkfræðinema um þróunartækifæri -sjávarútvegur, ferðaþjónusta og háskóli.
- Greining nýsköpunartækifæra á sviði sjávarútvegs.
- Lesfærni og íslenskunám aukið fyrir erlenda íbúa.
- Úttekt á möguleikum umskipunarhafna á Íslandi og Vestfjörðum.
Í ofangreind verkefni, sem eru um fimmtíu talsins, hefur verið veitt fjármunum að upphæð rúmlega 50 milljónir króna og er því meðaltalsstyrkur til verkefnis um ein milljón. Sjávarútvegs- og matvælatengd verkefni hafa fengið styrki upp á um 10 milljónir, ferðaþjónustu- og menningartengd verkefni hafa fengið styrki upp á um 20 milljónir, mennta- og rannsóknatengd verkefni hafa fengið um 10 milljónir og önnur nýsköpunar- og þróunarverkefni um 10 milljónir.
> Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða