Óvissa um helgihald vegna veðurs og færðar
Útlit er fyrir hvassviðri og slæma færð næstu daga og ljóst að helgihald í Reykhólaprestakalli þarf að taka mið af því, líkt og fleira. „Enginn ætti að hætta sér út í óveður og ófærð þessa daga. Fólk er því beðið um að fylgjast með fréttum af helgihaldi á heimasíðu prestakallsins og facebooksíðu prestsins,“ segir sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Reykhólaprestakalli.
Áformaðar messugerðir og helgihald um hátíðarnar er að finna í dagatalinu hér efst til hægri en það ber að taka með ofangreindum fyrirvara.
Jólahelgistund barnanna er á dagskrá í dag, aðfangadag, og sem stendur er ekki búið að aflýsa henni „en líkur á því að hún verði haldin eru hverfandi,“ segir sr. Elína núna á tíunda tímanum að morgni aðfangadags.
Sama á við um hátíðarhelgistundina í Barmahlíðinni sem vera á kl. 15.30 í dag. Tilkynningar um þessar stundir verða birtar á netmiðlunum „og svo má líka alltaf hringja í síma 434 7716“ segir sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir sóknarprestur.