Óvíst um opnun Arnkötludalsvegar í vetur
Nú hefur verið unnið við nýja veginn um Gautsdal og Arnkötludal í rúmt ár. Fyrst og fremst hefur verið unnið í Reykhólahreppi en eftir er að leggja veginn um Arnkötludalinn. Verkinu á að vera að fullu lokið 1. september 2009. Útlögn á neðra burðarlagi á að vera lokið 1. desember í vetur og frágangur þannig að þá verði hægt að heimila umferð um veginn. Óvíst er hins vegar hvort það verður gert.
Vefurinn strandir.is forvitnaðist um gang mála hjá Vegagerðinni, hvort dagsetningar stæðust og hvernig yrði staðið að opnun vegarins. Í svari frá Gísla Eiríkssyni umdæmisverkfræðingi kemur fram, að í gögnum er ákvæði þess efnis að Vegagerðin geti tekið veginn í notkun á komandi vetri frá 1. desember til 1. apríl og þá verði ekið á neðra burðarlagi sem á að vera tilbúið 1. desember.
Hins vegar hefur samkvæmt svari Gísla ekki enn verið tekin ákvörðun innan Vegagerðarinnar um það hvort vegurinn verði yfirleitt opnaður næsta vetur, þrátt fyrir þetta ákvæði, og ljóst að veginum yrði lokað aftur á næsta vori á meðan unnið verður að verklokum. Óvíst er að sögn Gísla hvort skynsamlegt sé að opna veginn þegar á allt sé litið, meðal annars vegna kostnaðar, t.d. við merkingar, auk þess sem vegurinn geti ekki verið annað en vondur yfirferðar á neðra burðarlaginu.
Vegurinn um Arnkötludal liggur milli Djúpvegar í Steingrímsfirði og Vestfjarðavegar í Geiradal, skammt frá Króksfjarðarnesi. Liggur vegurinn um Gautsdal og þaðan yfir í Arnkötludal að þjóðveginum við Hrófá, rétt sunnan við Hólmavík. Vegurinn verður 24,5 km langur og fer hæst í um 368 metra hæð yfir sjávarmáli við Þröskulda.
Alls bárust 9 tilboð í verkið á sínum tíma og var tilboð Ingileifs Jónssonar ehf. það lægsta, 661,8 milljónir króna, sem er 76,5% af kostnaðaráætlun, en það hæsta 879,4 milljónir króna frá Ístaki. Var samið við Ingileif Jónsson í apríl 2007 og hófst vinna við vegagerðina skömmu síðar. Þrír undirverktakar taka þátt í verkinu. Fossvélar á Selfossi sjá um efnisvinnslu, Suðurverk um sprengingar og Borgarverk um klæðningu. Flýtiákvæði var sett í samninga um að verktaki fengi 20 milljónir í bónus ef búið yrði að ganga frá kæðningu á veginn haustið 2008 en útséð er um þetta og hefur líklega aldrei verið raunhæft.
Fréttavefurinn strandir.is