Tenglar

25. febrúar 2011 |

Palli í Múla jarðsunginn í Reykhólakirkju

Páll Straumberg Andrésson.
Páll Straumberg Andrésson.
Páll Straumberg Andrésson, Palli í Múla, lést fimmtudaginn 17. febrúar á heimili sínu, Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum, 83 ára að aldri. Hann verður jarðsunginn í Reykhólakirkju á morgun, laugardag, kl. 13. Páll Straumberg var fæddur á Hamri í Múlasveit 29. janúar 1928, áttundi í röð fimmtán barna þeirra Guðnýjar Gestsdóttur og Andrésar Gíslasonar á Hamri.

 

Eins og títt var á þeim árum þegar Páll var ungur maður fór hann að heiman til vinnu. Vann ýmislegt sem til féll, meðal annars kom hann að innréttingu gamla barnaskólans á Reykhólum. Árið 1962 ákvað hann að gerast bóndi og fékk jörðina Múla í Þorskafirði til ábúðar, en hún hafði þá ekki verið byggð í eitt eða tvö ár. Þar var þá gamalt íbúðarhús með sambyggðu litlu fjósi og hlöðu, fjárhús og nýleg hlaða við þau. Fjárhúsin og hlaðan standa enn, en eru orðin ansi lúin og ekki til notkunar sem skepnuhús. Íbúðarhúsið brann veturinn 1984 og bjó Páll í skúr frá Vegagerðinni það sem eftir lifði vetrar og fram á sumar, en þá fékk hann það hús sem nú stendur á jörðinni, Viðlagasjóðshús, eitt af mörgum sem komu til landsins eftir Vestmannaeyjagosið.

 

Eins og gengur fékk hann til sín ráðskonu í upphafi búskaparins í Múla og rugluðu þau saman reytum sínum. Eignuðust þau eina dóttur, Pálínu Straumberg, en sambúðin stóð ekki mörg ár því þau slitu samvistir 1969 og bjó Páll einn alla tíð upp frá því. Bústofninn var ekki stór. Framan af var hann ein kýr og líklega um 100 kindur. Fljótlega eftir 1970 lét Páll kúna fara og var eingöngu með fé eftir það.

 

Þjóðvegurinn lá fyrir ofan túnið í Múla og því var nokkuð gestkvæmt. Bændur úr þáverandi Gufudalssveit stöldruðu við á leið sinni og þáðu kaffisopa, sem og bændur úr Reykhólasveit og Geiradal ef þeir áttu leið um. Það var hæfilega langt frá veginum heim að húsi til að fólk gæfi sér tíma til að athuga með einbúann. Hlunnindi nýtti Páll sér til viðurværis, silungsveiði í árósnum vestan við og svo rjúpuna á haustin, meðan hann gat farið um fótgangandi. Seinni árin var hann svo við vinnu í sláturhúsi KKK í Króksfjarðarnesi, þar til hann var orðinn það fullorðinn að hann fór að draga sig í hlé.

 

Upp úr 1993 hættir hann að hafa vetursetu í Múla, fékk féð hýst hjá öðrum bændum og hélt í suðurveg eins og farfuglarnir. Setti sig niður á Akranesi, hjá dóttur sinni og fjölskyldu hennar. Þar átti hann orðið tvo gullmola, alnafna sinn Pál Straumberg og Odd Andrés, sem voru mjög hændir að afa sínum. Hjá þeim er hann til 2003, að hann fer í síðustu vorferðina vestur. Hann veiktist alvarlega fljótlega eftir að hann kom heim og eftir erfiða sjúkrahúslegu og hressingarvist á Reykjalundi flutti hann að Barmahlíð og bjó þar síðustu æviárin.

 

Systkini Páls voru Haukur Breiðfjörð Guðmundsson, f. 23.08.1919, sem er hálfbróðir þeirra sammæðra, Gísli, f. 22.09.1920, d. 22.02.1945, Guðbjartur Gestur, f. 22.01.1922, d. 08.12.2010, Sigurbergur, f. 04.02.1923, d. 12.02.1989, Kristín, f. 11.05.1924, Andrés Berglín, f. 28.06.1925, d. 22.04.2003, Guðrún Jóhanna, f. 03.01.1927, d. 20.09.2007, Sigríður, f. 22.04.1929, d. 30.01.2000, Bjarni Kristinn, f. 03.03.1930, d. 22.11.2008, Jón, f. 26.03.1931, Ingibjörg Sigurhildur, f. 27.04.1932, d. 12.08.1943, Eggert, f. 17.08.1933, d. 26.06.2004, Garðar, f. 20.03.1935, d. 05.07.2001, Björg, f. 23.01.1937.

 

Athugasemdir

Pálína St.Pálsdóttir, laugardagur 30 mars kl: 22:30

Einhverra hluta vegna hef ég ekki lesið þetta fyrr en nú, en ástarþakkir fyrir þessi skrif.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31