„Plan B“ við leið B
„Það er góð regla að eiga alltaf til „plan B“, eins og kallað er, og Vestfirðingum er eiginlegt að hafa alltaf eitthvað upp á að hlaupa“, segir Oddur Guðmundsson í grein hér á vefnum. „Það er til ágætis plan B við leið B, að vísu nokkru dýrara en samt örugglega mun ódýrara en jarðgöng undir Hjallaháls. Höldum okkur við leið B eins og hún liggur frá Skálanesi um Grónes á Hallsteinsnes og inn með Þorskafirði að vestanverðu inn á Grenitrésnes, eða Kleifarnes, eða annars staðar þar sem hagstæðast er að þvera Þorskafjörðinn fyrir utan Teigsskóg. Komið yrði að landi að austanverðu í Laugalandshrauninu eða þar um bil, eftir því sem hagstæðast væri, og farið inn með firðinum að núverandi leið sunnan Kinnarstaða“, segir Oddur.
„Með þessu höldum við í láglendisveg og látum þá vætti er í Teigsskógi búa óáreitta og getum geymt hann fyrir ókomnar kynslóðir, sem vonandi verða víðsýnni en okkar kynslóð. Þetta afbrigði af leið B er ívið styttra en sú upphaflega og væntanlega líka snjóléttara. Jarðgöng undir Hjallaháls koma örugglega til með að kosta mun meira en þessi leið. Fyrir nú utan það, að með jarðgöngum þar væri búið að loka fyrir alla stórflutninga inn á suðursvæði Vestfjarða, því að jarðgöng loka fyrir slíka flutninga frá Ísafirði þó menn vildu fara þá leið.“
Grein Odds í heild er að finna undir Sjónarmið / Aðsent efni í valmyndinni hér vinstra megin. Þar er jafnframt að finna kort þar sem hugmynd hans að leiðarvali er teiknuð inn.
Oddur Guðmundsson er framkvæmdastjóri Bjarkalundar í Reykhólasveit en búsettur á Patreksfirði.
Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður vefjarins, mnudagur 19 september kl: 12:06
Minni á Facebook-möguleika sem settur var hér inn á síðuna fyrir nokkru. Með því að smella á Mæli með eða Líkar við eða Like eða hvað sem nú birtist neðan við fréttir eða greinar, þá dreifist fréttin miklu víðar.
P.s.: Með þessu innleggi er umsjónarmaður ekki að leggja neinn dóm á hina ólíku kosti varðandi Vestfjarðaveg nr. 60!
Enn og aftur eru lesendur hvattir til að láta í ljós álit sitt hér í athugasemdakerfinu, hvort heldur með eða móti því sem um er rætt.