Plastpokalausi dagurinn 3. júlí
Á Plastpokalausa deginum 3. júlí munu Farfuglaheimilin á Íslandi taka höndum saman til að vekja athygli gesta á mengun af völdum plasts. Þann dag munu gestir sem gista á Farfuglaheimilunum í landinu fá gefins fjölnota poka úr lífrænni bómull. Með þessum eru gestir hvattir til að afþakka plastpoka á ferðalaginu og vera ábyrgir ferðamenn. Þrjátíu Farfuglaheimili, víðsvegar á Íslandi, taka þátt í viðburðinum.
Plast er til margra hluta nytsamlegt en því miður erum við farin að treysta um of á einnota plast í daglegu lífi – með alvarlegum afleiðingum fyrir umhverfið. Á hverju ári eru um 5 milljarðar plastpoka notaðir. Um helmingur þeirra er aðeins notaður í eitt skipti og endar í landfyllingum eða sem mengun á landi og sjó.
- · Ein milljón plastpoka er í notkun í heiminum á hverri mínútu
- · Meðal Evrópubúi notar um 500 plastpoka á ári hverju
- · 3.4 tonn af plasti eru framleidd í löndum Evrópusambandsins ár hvert
- · Plastpokar eru framleiddir úr hráolíu sem er óendurnýjanleg auðlind
Tökum höndum saman og drögum úr notkun plastpoka
#hiiceland #farfuglar #beatplasticpollution
Nánari upplýsingar;
Helena W. Óladóttir, Gæða- og umhverfisstjóri, Netfang: helena@hostel.is
Farfuglaheimilin
Farfuglar eru hluti af alþjóðasamtökum Hostelling International, einni stærstu gistihúsakeðju í heimi og eru Farfuglaheimilin staðsett í yfir 80 löndum í öllum heimsálfum. Hlutverk þeirra er að stuðla að ferðalögum sem auka þekkingu fólks á umhverfinu, umhyggju fyrir náttúrunni og virðingu fyrir menningarlegu gildi borga og bæja í öllum heimshlutum. Það eru 33 Farfuglaheimili á Íslandi. Farfuglar hafa til margra ára verið í fararbroddi umhverfisvænnar ferðaþjónustu hér á landi og með markvissu umhverfis- og gæðastarfi er komið til móts við kröfur og væntingar gestanna.