Tenglar

10. desember 2008 |

Pökkunarstöð fyrir krækling í Króksfjarðarnesi?

Bergsveinn á Gróustöðum sýnir gestum á Ólafsdalshátíð kræklinginn.
Bergsveinn á Gróustöðum sýnir gestum á Ólafsdalshátíð kræklinginn.

„Það þarf mikinn búnað til að hreinsa skelina og segja þeir í Kanada að það þurfi 4000 tonn til þess að reka fullkomna pökkunarstöð. Þessi pökkunarstörf verða í fyrstu í Eyjafirði en hugmyndir eru uppi um að Eyfirðingar flytji verksmiðjuna til Búðardals eða í Króksfjarðarnes því það stefnir í að Vestfirðingar verði stærstir í kræklingarækt innan fárra ára og því yrði best að hafa verksmiðjuna miðsvæðis", segir Jón Örn Pálsson, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða. Rætt er við hann um kræklingarækt á Vestfjörðum á fréttavefnum bb.is í dag.

 

Fram kemur að uppskeran í kræklingarækt á Vestfjörðum verði að líkindum 10-20 tonn á næsta ári. Jón Örn telur ekki ólíklegt að hún verði um 4000 tonn innan tíu ára. Vestfirðingar hafi í nokkur ár undirbúið kræklingarækt en fjögur fyrirtæki sjái fram á að taka upp línurnar næsta haust enda bláskelin á línunum hæf til vinnslu og manneldis.

 

Jón Örn hefur tekið saman vöxt á framleiðsluaukningu í nokkrum löndum og telur raunhæft að kræklingarækt geti dafnað vel á Íslandi. Hann telur þrjár ástæður fyrir því.

 

„Í fyrsta lagi erum við með ráðgjöf og þekkingu frá Kanada. Í öðru lagi er hér á landi mjög gott samstarf á meðal framleiðenda og einnig eru stjórnvöld farin að vakna og ætla sér að styðja greinina. Í þriðja lagi er mjög hátt markaðsverð fyrir krækling. Eftirspurnin hefur aukist eftir honum og framleiðslan á honum hefur minnkað mjög mikið í Danmörku og Hollandi. Í Danmörku hefur kræklingaframleiðsla minnkað mjög mikið vegna hækkandi hitastigs í sjónum. Þessir þrír þættir benda til þess að við getum náð fótfestu í þessum iðnaði," segir Jón Örn Pálsson.

 

Á myndinni er Bergsveinn Reynisson, kræklingsræktandi á Gróustöðum í Reykhólahreppi, með sýnishorn af framleiðslunni á Ólafsdalshátíðinni á liðnu sumri. Gilsfjörðurinn aðskilur Gróustaði og Ólafsdal í Dalabyggð.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31