Tenglar

21. ágúst 2008 |

Póstafgreiðslunni í Nesi lokað um mánaðamótin

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur samþykkt umsóknir Íslandspósts um að fá að loka póstafgreiðslustöðum á fimm stöðum á landinu, þar á meðal í Króksfjarðarnesi. „Vegna smæðar samfélagsins" taldi Íslandspóstur ekki þörf á að reka þar sérstaka póstafgreiðslu heldur væri hægt á auðveldan hátt að inna þjónustu póstafgreiðslunnar af hendi með landpósti. Landpóstar séu eins konar pósthús á hjólum, sem komi með og sæki sendingar eftir þörfum. Auk þess séu einungis sex heimili „á Króksfjarðarnesi“ og örfá fyrirtæki í kring. „Er það niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að sú þjónusta sem Íslandspóstur hyggst bjóða íbúum í viðkomandi sveitarfélögum uppfylli eftir sem áður gæðakröfur laga um póstþjónustu nr. 19/2002."

Ákvörðun PFS er dags. 12. ágúst en var birt á vef stofnunarinnar í dag. Póstafgreiðslunni í Nesi verður samkvæmt þessu lokað núna um mánaðamótin.

 

Í rökstuðningi með umsókn sinni um lokunina sagði Íslandspóstur m.a.:

 

„Dreifing verður daglega í höndum landpósts (bæði bréf og skráðar sendingar). Settir verða upp póstkassar til þeirra sem ekki hafa verið með póstkassa á Króksfjarðarnesi. Því ætti aðgengi að vera gott."

 

Í tengslum við þá röksemd má e.t.v. rifja upp, að fyrir skömmu staðfesti úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála beiðni Íslandspósts um fækkun póstdreifingardaga í hluta Reykhólahrepps úr fimm dögum í viku í þrjá daga í viku.

 

Eftir að PFS barst beiðni Íslandspósts um lokun póstafgreiðslunnar í Nesi leitaði hún umsagnar sveitarstjórnar Reykhólahrepps, sem mótmælti þeim áformum harðlega.

 

„Ef breytinga er þörf væri skynsamlegra að færa póstafgreiðsluna út á Reykhóla, þar sem um helmingur íbúa sveitarfélagsins býr í þéttbýliskjarnanum. Í þorpinu búa um 130 manns, en heildaríbúafjöldi sveitarfélagsins er 266. Engin önnur póstafgreiðsla er í sveitarfélaginu, sem er um 1.090 ferkílómetrar að flatarmáli og næsta póstafgreiðsla er í Búðardal sem er í um 75 km fjarlægð", sagði m.a. í umsögn sveitarstjórnar. Einnig var minnt á það hlutverk PFS að „stuðla að því að gætt sé jafnræðis við meðhöndlun fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda sem búa við sömu aðstæður" og „vinna að því að allir landsmenn eigi aðgang að alþjónustu". Sveitarstjórn taldi jafnframt, að með því að heimila lokun einu póstafgreiðslunnar í sveitarfélaginu væri PFS ekki að vinna samkvæmt lögum.

 

Ákvörðunarorð PFS í málinu:

 

„Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir beiðni Íslandspósts hf., frá 25. febrúar 2008, og heimilar fyrirtækinu að loka þeirri póstafgreiðslu sem rekin hefur verið á Króksfjarðarnesi, póstnúmer 380, frá og með 1. september n.k. Ákvörðun þessi er kæranleg til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Kæran skal berast úrskurðarnefnd innan fjögurra vikna frá því viðkomandi varð kunnugt um ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar."


Sjá nánar:
 

Ákvörðun nr. 21/2008 um lokun póstafgreiðslu Íslandspósts hf. á Króksfjarðarnesi“ (pdf-skjal)
 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30