Tenglar

8. september 2008 |

Pósthúsið í Nesi enn opið og enginn veit neitt

Pósthúsinu í Króksfjarðarnesi var ekki lokað núna um mánaðamótin eins og ákveðið hafði verið. Þetta kemur mörgum á óvart, bæði íbúum Reykhólahrepps og líka Lilju Rafneyju Magnúsdóttur á Suðureyri, sem á sæti í stjórn Íslandspósts. Þegar haft var samband við hana í dag vissi hún ekki annað en búið væri að loka í Króksfjarðarnesi. Afgreiðslustjóri pósthússins í Króksfjarðarnesi veit nánast ekkert um þetta mál og vissi ekkert um fyrirhugaða lokun nema úr fjölmiðlum. Ekkert er finnanlegt á fréttavef Íslandspósts um þessa breytingu frá því sem ákveðið hafði verið.

 

Raunar er ekki heldur finnanlegt á vef Íslandspósts, a.m.k. ekki með góðu móti, hverjir eiga þar sæti í stjórn. Það eina sem þar virðist finnanlegt um stjórnina er í síðustu ársskýrslu, sem hægt er að grafa upp á vef stofnunarinnar. Þar kemur fram að tveir Vestfirðingar eigi þar sæti, þau Lilja Rafney og Elías Jónatansson, núverandi bæjarstjóri í Bolungarvík. Að sögn Lilju Rafneyjar hætti Elías hins vegar í stjórninni á síðasta aðalfundi.

 

Sóley Vilhjálmsdóttir, afgreiðslustjóri pósthússins í Króksfjarðarnesi, veit ekki öllu meira en stjórnarmaðurinn Lilja Rafney. Hún kveðst hafa séð það í fréttum að loka ætti pósthúsinu þar núna um mánaðamótin. Hana langaði, eins og skiljanlegt má vera, að vita eitthvað meira um þetta mál og spurðist því fyrir um lokunina hjá yfirmönnum sínum á miðvikudaginn í fyrri viku - fjórum dögum áður en átti að loka skv. fréttum í fjölmiðlum (eða öllu heldur tveimur dögum áður vegna þess að ekki hefur verið opið um helgar) - og fékk þau svör, að eftir ætti að funda um málið og ekki yrði lokað alveg strax. „Þetta er það eina sem ég veit", sagði Sóley í samtali við vefinn núna í kvöld – nema hvað henni var sagt að hún fengi að vita um það með einhverjum fyrirvara hvenær lokað yrði.

 

Fundur í stjórn Íslandspósts var haldinn á þriðjudaginn í síðustu viku, 2. september. Þar lét Lilja Rafney bóka eftirfarandi varðandi lokun pósthúsa á landsbyggðinni:

 

Með lokun póstafgreiðslna er verið að draga úr þjónustu á viðkomandi svæðum og þjónusta landpósta mun ekki geta mætt þeirri þjónustuskerðingu að öllu leyti. Markmið laga um póstþjónustu er m.a. að tryggja lágmarksfjölda afgreiðslustaða og viðskiptaleg rök og hagræðing geta ekki eingöngu ráðið för þegar lagt er til að  póstafgreiðslum vítt og breitt um landið sé lokað. Hafa verður að leiðarljósi að tryggja landsmönnum öllum án mismununar greiðan aðgang að póstafgreiðslum í sínu nánasta umhverfi. Ég mun því ekki samþykkja þær lokanir á póstafgreiðslum sem kynntar hafa verið að óbreyttu.

 

Með hliðsjón af þeirri ákvörðun Íslandspósts að fækka póstdreifingardögum úr fimm í þrjá á ákveðnum svæðum, þar á meðal í hluta Reykhólahrepps, lét Lilja Rafney einnig bóka:

 

Með lögum um póstþjónustu nr. 19/2002 var lögfest að alþjónustuaðili þ.e. Íslandspóstur hf. skuli veita 5 daga þjónustu alls staðar á landinu nema þar sem kringumstæður og landfræðilegar aðstæður hindruðu slíkt. Telja má að lagaleg óvissa ríki um undanþáguákvæði í reglugerðinni um alþjónustu á 5 daga póstdreifingu og tel ég rétt að þeirri óvissu verði eytt fyrir dómstólum eða reglugerðin endurskoðuð svo vilji stjórnvalda komi ótvírætt fram um hvernig tryggja megi landsmönnum á jafnræðisgrundvelli alþjónustu í póstdreifingu. Á þessum forsendum leggst ég gegn því að fækka dreifingardögum á pósti á suðurhluta Vestfjarða úr 5 dögum í 3.

 

Lilja Rafney kveðst á fundinum 2. september hafa óskað eftir frestun þessa máls í tvo mánuði í samræmi við bréf sveitarstjóra Reykhólahrepps til samgönguráðherra. „Ég fékk ekki undirtektir við því og lagði þess vegna fram þessa bókun. Meirihluti stjórnarinnar samþykkti hins vegar að fylgja þessu eftir eins og ákveðið hafði verið." Hún kveðst ekkert vita um ástæður þess að pósthúsið í Króksfjarðarnesi skuli samt sem áður vera ennþá opið. „Ég skildi menn þannig á þessum fundi að ekki yrði um neina frestun að ræða enda væri málið búið að fá afgreiðslu hjá Póst- og fjarskiptastofnun."

 

Sjá fyrri frétt: Póstafgreiðslunni í Nesi lokað um mánaðamótin

 

Athugasemdir

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, rijudagur 09 september kl: 09:54

Það er með eindæmum sú lítilsvirðing sem okkur íbúum Reykhólahrepps er sýnd hvað varðar póstþjónustu Íslandspósts. Ekker samband eða samráð er haft við okkur, við fáum ekki eðlilegar tilkynningar um breytingar hjá þessu fyrirtæki, heldur er hinum ýmsu breytingum skellt yfir okkur án nokkurs fyrirvara. Við þurfum öll að mótmæla því harðlega hvernig vinnubrögð þessa fyrirtækis eru. Póstkassar eru settir upp jafnvel með 7 km fjarlægð frá heimili, þar sem fólki er gert að sækja póstinn sinn í ólæsta skápa. Engin tilkynning send um það fyrirfram. Nú á að loka þessu eina pósthúsi í allri sýslunni og næsta pósthús þá í 75 km fjarlægð frá þéttbýlinu á Reykhólum. Ég mótmæli þessu harðlega og skora á alla okkar ráðamenn að reyna að koma í veg fyrir þetta.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31