Tenglar

27. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Pósturinn komst til skila eftir fjórtán ár

Efri hluti bréfsins sem Ágústa póstlagði, ef svo má segja, fyrir rúmum 14 árum.
Efri hluti bréfsins sem Ágústa póstlagði, ef svo má segja, fyrir rúmum 14 árum.
1 af 7

Flöskuskeyti sem Ágústa Ýr Sveinsdóttir frá Skálanesi í Gufudalssveit „setti í póst“ á Sauðá á Vatnsnesi þegar hún var tíu ára gömul, eða fyrir fjórtán árum, kom í leitirnar í Trékyllisvík á Ströndum núna í haust. Það var tólf ára gamall piltur í Árnesi, Kári Ingvarsson, sem gekk fram á flöskuna þegar hann var að smala. „Mamma sendi mér skilaboð um að þetta flöskuskeyti hafi fundist. Þá var ég stödd í Nepal, þar sem ég var að fljúga svifvæng sem ég geri eins mikið og ég get í frítímanum mínum. Ég ákvað að senda honum póstkort til að þakka fyrir að senda mér bréfið aftur,“ segir Ágústa Ýr, sem núna um hátíðarnar er stödd heima á Skálanesi.

 

„Þótt ég muni ekki sérstaklega eftir því að hafa sent þetta bréf, þá finnst mér alveg magnað að sjá það aftur, og í svona góðu ástandi. Vinkona mín átti heima á Sauðá og við sendum mikið af flöskuskeytum á þessum tíma.“

 

Bréfið hennar Ágústu Ýrar er dagsett 18. september 1999 og hljóðar svo:

Hæ hæ, ég er 10 ára stelpa sem heitir Ágústa Ýr. Ég á heima á Laugarbakka og á Skálanesi og set þetta bréf í sjóinn á Sauðá heima hjá Stellu. Þegar þú finnur þetta bréf, viltu þá senda mér bréf í pósti. [Utanáskriftin]. Viltu líka senda flöskuskeyti í sjóinn hjá þér?

 

Undir tilskrifinu er teikning af flöskuskeyti í sjónum, sjá mynd nr. 2.

 

Bréfið frá finnanda skeytisins barst með skilum að Skálanesi (á öllu skemmri tíma en hitt bréfið) og er á þessa leið (mynd nr. 3):

Hæhæ, Ágústa. Ég heiti Kári og er 12 ára. Í haust þegar ég var að smala fann ég flöskuskeyti sem þú settir í sjóinn árið 1999. Bréfið var alveg þurrt svo það var læsilegt. Ég fletti þér upp á Já.is og það var auðvelt að finna þig því þú átt enga alnöfnu. Ég á heima hinumegin við Húnaflóann, í Árnesi í Árneshreppi. Vonandi hefurðu gaman af að fá bréfið þitt aftur. Kær kveðja. Kári Ingvarsson.

 

Á mynd nr. 4 er póstkortið sem Ágústa sendi Kára í Árnesi. Leið þess var nokkru lengri og skilatíminn öllu styttri en hjá flöskuskeytinu: Um 8.000 km á móti um 60 km (myndir nr. 5 og 6) og nokkrir dagar á móti fjórtán árum.

 

 

Tvisvar áður hefur verið fjallað um Ágústu Ýri Sveinsdóttur rafvirkja og fjölmiðlatækni hér á vef Reykhólahrepps. Fyrst haustið 2011 þegar hún hafði nýlokið sveinsprófi í rafiðnum, þar sem hún náði bestum árangri allra og var hlaðin verðlaunum bæði í bóklegum og verklegum greinum. Þá var hún reyndar komin til Indlands í upphafi hálfs árs bakpokaferðar um heiminn. Mátti segja að hún hafi verðskuldað svolítið frí og jafnvel rúmlega það eftir unnin námsafrek og einstakan dugnað. Í seinna skiptið var greint frá því hér snemma árs 2012 þegar Rio Tinto Alcan birti mynd af henni í heilsíðuauglýsingu þar sem sagði m.a.: Metnaður Ágústu er okkur öllum hvatning.

 

Sjá tengla á þessar fréttir hérna neðst. Sú fyrri er mjög ítarleg og kemur þar fram sitthvað bæði fróðlegt og skemmtilegt.

 

Aðspurð núna á þriðja degi jóla anno 2013 hvað helst hafi drifið á dagana síðan segir Ágústa Ýr:

 

„Ég er bæði búin að vera að ferðast um heiminn og vinna sem rafvirki. Á Grænlandi var ég eitt og hálft ár að vinna við byggingu virkjunar og hef fengið að fara annað slagið í löng frí til að ferðast um Asíu, Suður-Afríku og Austur-Evrópu. Núna er ég búin að vera heima í nokkrar vikur og byrjuð að skipuleggja næsta ferðalag og næstu ævintýri.“

 

10.10.2011 Ekki pláss fyrir verðlaunin í bakpokaferð um heiminn

23.02.2012 Metnaður Ágústu er okkur öllum hvatning

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30