Tenglar

8. júní 2016 |

Pósturinn mismunar landsmönnum

Verulega hefur dregið úr póstþjónustu í dreifbýli. Dreifingardögum var fækkað núna í vorbyrjun og ekki er langt síðan allir póstkassar voru færðir út á afleggjara svo að margir þurfa jafnvel að ganga einn til tvo kílómetra eftir póstinum. Pósturinn útvegaði þessa póstkassa, til að þurfa ekki að keyra póstinn heim að dyrum, en nýlega var tilkynnt að dreifbýlisbúar þyrftu að borga fyrir póstkassana og uppsetningu þeirra. Veruleg óánægja er með þessa þjónustuskerðingu; til dæmis má sjá það á Facebook-síðu umræðuhóps um landsbyggðarstefnu Póstsins.

 

Þetta kemur fram í úttekt Ingveldar Geirsdóttur blaðamanns í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig m.a.:

 

Högni Elfar Gylfason, bóndi á Korná í Skagafirði, hefur sent formlega kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna reglugerðarbreytinga innanríkisráðuneytisins, sem heimiluðu Póstinum að fækka dreifingardögum í dreifbýli í þeim tilgangi að draga úr kostnaði. Það er mat Högna, að í reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu sé þess hvergi getið að mismuna megi landsmönnum vegna mismunandi kostnaðar við dreifingu póstsins, og að þessi mismunun standist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

 

„Í lögum um póstþjónustu segir að það eigi að bera út hvern virkan dag nema undir sérstökum landfræðilegum eða veðurfræðilegum aðstæðum; það er ekki minnst á að það megi til að spara peninga. Reglugerðinni var breytt í september og ein af skýringunum sem ég fæ fyrir því að það hafi verið í lagi er að enginn hafi kvartað yfir reglugerðarbreytingunni, en fólk vissi ekkert af henni fyrr en hún skall á,“ segir Högni.

 

Núna er pósturinn borinn út í dreifbýli þrjá daga í viku aðra vikuna og tvo hina, eða tíu daga í mánuði. „Pósturinn fékk leyfi á sínum tíma til að loka fjölmörgum pósthúsum úti um allt land vegna þess að það væri borið út á hverjum virkum degi en það er fallið um sjálft sig.“

 

Samkvæmt upplýsingum frá Póstinum eru ekki uppi áform um að opna ný pósthús í tengslum við breytingar á dreifingardögum.

 

Léleg nettenging hjálpar ekki

 

„Mér finnst þetta vera mjög alvarlegt mál og þó nokkuð stór byggðaaðgerð í mínum huga. Hvert einasta heimili í sveit er líka fyrirtæki og því þurfum við að fá þessa þjónustu. Þeir segja að fólk hafi ekki viljað borga meira fyrir þjónustuna en við vorum ekki spurð að því og þeir segja að það sé ósanngjarnt að við fáum borið út fimm daga vikunnar en ekki Reykvíkingar, en það er munur á því að þurfa að keyra 100 km eftir póstinum eða að geta jafnvel gengið á pósthúsið. Pósturinn býðst til að keyra heim ef menn borgar sérstaklega fyrir það, en ríkistaxtinn á því er margfaldur,“ segir Högni.

 

„Ein rökin sem voru notuð fyrir því að það mætti fækka dreifingardögum er að menn gætu bara notað netið, en nettengingin er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hér er eldgamall 3G-sendir og þegar margir eru á tjaldstæðunum hér í kring þýðir ekkert fyrir mig að fara á netið.

 

Þessi breyting ber þess merki að vera unnin í embættismannakerfi af mönnum sem virðast ekki gera sér grein fyrir aðstæðum.“

 

A-póstur fimm daga á leiðinni

 

Högni bendir á að forsendur fyrir sendingu A-pósts í dreifbýli séu fallnar. Samkvæmt öllu á A-póstur að berast daginn eftir að hann er póstlagður til viðtakanda en Högni segir að hann hafi fengið A-póst fimm dögum eftir að hann var póstlagður í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Póstinum verður ekki hætt að taka við greiðslum fyrir A-póst í dreifbýli því Póstinum sé skylt að gera það. Starfsfólk eigi að vera vakandi fyrir því að benda á hentugasta kostinn hverju sinni þegar því verði við komið.

 

 

Fáeinar eldri fréttir um þessi mál á Reykhólavefnum:

 

14.04.2016  Þeir sem verst eru settir eru látnir sitja á hakanum

 

01.04.2016  Ótækt netsamband í Reykhólahreppi

 

31.03.2016  Pósturinn: Aukagjaldið 266 krónur á kílómetra

 

30.03.2016  Skerðingin að ganga í gildi

 

22.03.2016  Pósturinn: Höfum enga aðra kosti í stöðunni

 

01.03.2016  Skerðingin á póstþjónustunni frestast um mánuð

 

16.02.2016  Netvæðingarloforðin lenda á sveitarfélögunum


16.02.2016  Ráðherra ritað bréf vegna skerðingar á póstþjónustu

 

01.02.2016  Undanþága frá lögum veitt í reglugerð

 

27.01.2016  Óboðlegt netsamband, óviðunandi sauðfjárveikivarnir

 

27.01.2016  Aðför að dreifðum byggðum

 

08.01.2016  Pósturinn: Dreifingardögum fækkað um helming

 

10.11.2015  Samtök sveitarfélaga skora á ráðherra og þingmenn

 

14.04.2015  Ljósleiðaravæðing: Sveitarfélög og íbúar hefjist handa

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31