30. desember 2009 |
Prjónahúfur handa öllum börnum sem fæðast á árinu
Öll börn sem fæðast hérlendis á hinu nýja ári 2010 fá heimaprjónaða húfu að gjöf frá Kvenfélagasambandi Íslands. Markmiðið með þessu verkefni er að vekja athygli á gjöfulu starfi kvenfélaga og einnig til að minnast þess að á næsta ári verða 80 ár liðin frá því að kvenfélög landsins mynduðu með sér samband, Kvenfélagasamband Íslands. Með þessu vilja konurnar jafnframt senda góða og hlýja kveðju til nýrra þjóðfélagsþegna og foreldra þeirra. Gera má ráð fyrir að um fimm þúsund börn fæðist hérlendis á árinu. Það kemur í hlut ljósmæðra að afhenda foreldrum húfurnar.
Barnahúfurnar eru prjónaðar úr kambgarni frá Ístex og fylgir hverri þeirra heillaóskakort. Á kortinu kemur fram nafn konunnar sem prjónaði húfuna og hvaða kvenfélagi hún tilheyrir. Ístex ber kostnaðinn af prentun kortanna. Telja má líklegt að húfurnar verði skemmtilegir minjagripir þegar fram líða stundir.
Ýmsir sem eru ekki í kvenfélögum hafa sýnt áhuga á að fá líka að prjóna húfur á börnin. Kvenfélagakonur fagna því og hvetja viðkomandi til að hafa samband við kvenfélög á hverjum stað eða við Kvenfélagasamband Íslands.