Tenglar

6. júlí 2011 |

Ráðherra kynnir sér vegamálin og kemur á Reykhóla

Frá Vestfjarðavegi nr. 60.
Frá Vestfjarðavegi nr. 60.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og þar með jafnframt samgönguráðherra er á þriggja daga ferð um Vestfirði, einkum til að kynna sér stöðu vegamála. Með í förinni eru Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og fleiri. Einn helsti tilgangur ferðarinnar er að leita lausna á margra ára þrasi um nýtt vegstæði fyrir Vestfjarðaveg nr. 60 um Reykhólahrepp, en þar er Teigsskógur við Þorskafjörð í brennidepli. Á síðasta degi ferðarinnar á morgun verður komið á Reykhóla og rætt þar bæði við fulltrúa í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga og sveitarstjórnarfólk í Reykhólahreppi.

 

Fram kemur á vef innanríkisráðuneytisins, að í gær hafi ráðherra verið á Hólmavík en átt í morgun ásamt vegamálastjóra og ráðuneytisstjóra fund með bæjarstjórum Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar og nokkrum bæjarfulltrúum. Þar var rætt um það sem framundan er í vegaframkvæmdum á Vestfjörðum. Fram kom hjá sveitarstjórnarmönnum að samstaða væri um það í Fjórðungssambandi Vestfirðinga, að áhersla skyldi lögð á vegaframkvæmdir í Barðastrandarsýslu og síðan framkvæmdir við Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði. Í dag er fundur á Patreksfirði með sveitarstjórnarfólki.

 

Patreksfjörður, Tálknafjörður og Bíldudalur stefna í að verða síðustu þéttbýliskjarnar á Íslandi til að tengjast öðrum landshlutum með bundnu slitlagi. Ennþá er um 69 kílómetra langur malarkafli þaðan til Reykjavíkur. Íbúar Þingeyrar þurfa að þola 137 kílómetra langan malarkafla á þeim vegi sem eðlilegast væri að aka til Reykjavíkur. Á þeirri leið eru jafnframt tveir af erfiðustu fjallvegum landsins, Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.


Einar K. Guðfinnsson alþingismaður spurði Ögmund Jónasson á Alþingi í vor hvernig vegamál byggðanna á sunnanverðum Vestfjörðum yrðu löguð en Ögmundur gat engu svarað. Hann kvaðst þó ætla vestur á firði þegar þingi lyki og vinna að því koma málinu í réttan farveg. Einar lýsti þá stöðunni á sunnanverðum Vestfjörðum sem mestu sorgarsögu í uppbyggingu vegamála á Íslandi.

 

Í samtali við fréttavefinn visir.is í gærmorgun kvaðst ráðherrann búast við að sjá mikið af holum og grjóti á ferðalaginu um vestfirsku vegina.

 

Athugasemdir

GÆI, fimmtudagur 07 jl kl: 01:32

Hafa vegheflarnir verið að djöflast daga og nætur undanfarið þarna fyrir vestan? Skilið því nú til Ögmundar að kíkja til okkar á Strandirnar,ég skal skutlast með hann norður í Árneshrepp ef hann vill. KV GÆI

Eyvindur, fimmtudagur 07 jl kl: 08:03

Renndi á Patró og til baka í gær, ráðherrann er nokkuð heppinn með veginn hér vestur og við vísum honum norður Árneshrepp ef hann finnur ekki nóg af holum hér :)

Þórhallur B. Ólafsson, mnudagur 11 jl kl: 10:42

Það var Alexander mikli, sem frægur varð m.a. fyrir það að höggva á hnút, sem enginn hafði getað leyst. Það var Gordíonshnúturinn í Litlu-Asíu. Nú hefur orðið til lítt leysanlegur hnútur í austanverðri Gufudalssveit ( gamalt nafn, hún er víst orðin vestfirsk núna ! ). Þar eru tveir hálsar svo illfærir, að leita verður til Himalaya- eða Andesfjalla til að finna hliðstæður. Þegar menn koma akandi að vestan, dauðþreyttir eftir Dynjandisheiði og Klettsháls, verður þeim um og ó, þegar við þeim blasir hinn ógurlegi Ódrjúgsháls ! Og handan fjarðar ber við himinn að því er virðist ókleyfur fjallgarður, sem frá fornu fari heitir Hjallaháls. Er nema von, að mönnum, t.d. þingmanni vestan úr Bolungavík, bregði í brún. Hann veit, að leggaja má aðra leið ( þverun smáfjarðanna og lagning vegar á vesturströnd Þorskafjarðar ). Þarna liggur hnúturinn, því að náttúruverndarsinnar vilja ekki eyðileggja birkiskóg, sem þarna hefur verið langa tíð og fer vaxandi vegna lítillar eða engrar sauðbeitar. Þennan hnút vill þingmaðurinn höggva á að hætti herkonungsins. Og hann á kannske von í því, að sjálfur innanríkisráðherrrann leggi hönd á öxina með honum en kasti G-inu ú flokksnafninu. Sem umhverfisverndarsinna fyndist mér illa horfa fyrir hinni fögru sveit, ef þeir Axarmenn fái ráðið. Þó tekur fyrst steininn úr, þegar sveitarstjórn heimamanna fylla þennan flokk- líklega eru þetta vestfirðingar en ekki breiðfirðingar.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31