Ráðherra kynnir sér vegamálin og kemur á Reykhóla
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og þar með jafnframt samgönguráðherra er á þriggja daga ferð um Vestfirði, einkum til að kynna sér stöðu vegamála. Með í förinni eru Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og fleiri. Einn helsti tilgangur ferðarinnar er að leita lausna á margra ára þrasi um nýtt vegstæði fyrir Vestfjarðaveg nr. 60 um Reykhólahrepp, en þar er Teigsskógur við Þorskafjörð í brennidepli. Á síðasta degi ferðarinnar á morgun verður komið á Reykhóla og rætt þar bæði við fulltrúa í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga og sveitarstjórnarfólk í Reykhólahreppi.
Fram kemur á vef innanríkisráðuneytisins, að í gær hafi ráðherra verið á Hólmavík en átt í morgun ásamt vegamálastjóra og ráðuneytisstjóra fund með bæjarstjórum Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar og nokkrum bæjarfulltrúum. Þar var rætt um það sem framundan er í vegaframkvæmdum á Vestfjörðum. Fram kom hjá sveitarstjórnarmönnum að samstaða væri um það í Fjórðungssambandi Vestfirðinga, að áhersla skyldi lögð á vegaframkvæmdir í Barðastrandarsýslu og síðan framkvæmdir við Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði. Í dag er fundur á Patreksfirði með sveitarstjórnarfólki.
Patreksfjörður, Tálknafjörður og Bíldudalur stefna í að verða síðustu þéttbýliskjarnar á Íslandi til að tengjast öðrum landshlutum með bundnu slitlagi. Ennþá er um 69 kílómetra langur malarkafli þaðan til Reykjavíkur. Íbúar Þingeyrar þurfa að þola 137 kílómetra langan malarkafla á þeim vegi sem eðlilegast væri að aka til Reykjavíkur. Á þeirri leið eru jafnframt tveir af erfiðustu fjallvegum landsins, Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.
Einar K. Guðfinnsson alþingismaður spurði Ögmund Jónasson á Alþingi í vor hvernig vegamál byggðanna á sunnanverðum Vestfjörðum yrðu löguð en Ögmundur gat engu svarað. Hann kvaðst þó ætla vestur á firði þegar þingi lyki og vinna að því koma málinu í réttan farveg. Einar lýsti þá stöðunni á sunnanverðum Vestfjörðum sem mestu sorgarsögu í uppbyggingu vegamála á Íslandi.
Í samtali við fréttavefinn visir.is í gærmorgun kvaðst ráðherrann búast við að sjá mikið af holum og grjóti á ferðalaginu um vestfirsku vegina.
GÆI, fimmtudagur 07 jl kl: 01:32
Hafa vegheflarnir verið að djöflast daga og nætur undanfarið þarna fyrir vestan? Skilið því nú til Ögmundar að kíkja til okkar á Strandirnar,ég skal skutlast með hann norður í Árneshrepp ef hann vill. KV GÆI