Tenglar

16. febrúar 2016 |

Ráðherra ritað bréf vegna skerðingar á póstþjónustu

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps var fjallað um þann niðurskurð á póstdreifingu sem boðaður hefur verið, og var samþykkt að senda ráðherra póstmála bréf þar sem gerð væri grein fyrir sérstöðu Reykhólahrepps hvað varðar fjarlægð frá pósthúsi. Í bréfinu segir meðal annars:

 

Núna frá og með 1. mars verður pósti dreift annan hvern virkan dag, sem er m.a.s. afturför frá árinu 2003 þegar póstdreifing var aðeins þrjá virka daga í viku.

 

Þann 19. janúar 2016 sendi sveitarstjórn Reykhólahrepps bréf til ráðuneytis þíns, þar sem við komum á framfæri skoðun okkar á þessari breytingu. Afrit var sent Póst- og fjarskiptastofnun og Íslandspósti. Forstjóri Íslandspósts sá ástæðu til að svara okkur. Í svari hans segir m.a.:

 

„Eftir sem áður mun Pósturinn halda uppi daglegum flutningum um allt land og því verður áfram hægt að afhenda og nálgast sendingar alla virka daga á næsta póstafgreiðslustað.“

 

Reykhólahreppur er meðal þeirra sveitarfélaga þar sem búið er að loka póstafgreiðslu og verður að fara í Búðardal til að sækja póst á næsta afgreiðslustað. Frá þéttbýlinu á Reykhólum til Búðardals eru 75 kílómetrar og um fjallveg að fara. Ef þetta er borið saman við aðra þéttbýlisstaði með 100 íbúa og fleiri þar sem þessi þjónustuskerðing hefur verið ákveðin, þá er vegalengdin sem íbúar þéttbýlisins á Reykhólum þurfa fara meira en þrefalt lengri en meðaltalið er hjá hinum og nærri 80% lengri en hjá íbúum þess þéttbýliskjarna af þeirri stærð þar sem næstlengstan veg þarf að fara.

 

Sveitarstjórn Reykhólahrepps telur vegalengdina sem íbúar sveitarfélagsins þurfa að fara til að nálgast póst óviðunandi með öllu. Íbúar og fyrirtæki í sveitarfélaginu reiða sig að miklu leyti á að fá lyf og annað í pósti. Af þeirri ástæðu og jafnframt út frá almennum byggðasjónarmiðum er póstdreifing alla virka daga mjög mikilvæg og verður raunar að teljast næsta sjálfsögð krafa nú á tímum.

 

Í bréfinu er skorað á ráðherra að endurskoða ákvörðun sína í þessu máli, „en koma ella á fót sértækri póstþjónustu sem myndi gera íbúum og fyrirtækjum kleift að hafast hér við án þess að vera mismunað vegna fjarlægðar“.

 

Niðurlagsorðin eru þessi:

 

Við leyfum okkur í þessu efni að benda á 29. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 og spyrjum: Eiga ákvæði hennar ekki við hér?

 

Bréfið til ráðherra má lesa hér (pdf). Afrit voru send Póst- og fjarskiptastofnun og Íslandspósti.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31