Rækileg úttekt á byggðinni stórmerku í Flatey
Skýrsluna má nálgast hér á pdf-formi, auk þess sem hún er vistuð með sama hætti undir hinum nýstofnaða lið Byggð og saga - skýrslur í valmyndinni hér vinstra megin.
Fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps, Óskar Steingrímsson, skrifar m.a. í formála:
„Í ljósi þeirrar sérstöðu sem þorpið í Flatey hefur vegna einstaks umhverfis og byggingarlistar einstakra húsa ákvað sveitarstjórn Reykhólahrepps að láta vinna byggða- og húsakönnun í Flatey samhliða vinnu við gerð aðalskipulags sveitarfélagsins.
Byggða- og húsakönnun er sjónlistarleg og byggingarlistarleg skoðun, könnun, greining, úttekt, skráning og mat bæjarumhverfis og einstakra húsa og studd sagnfræðilegri könnun nauðsynlegra frumheimilda.
Byggða- og húsakannanir eru tvíþættar. Annars vegar er fjallað um bæjarumhverfi og hins vegar um einstök hús. Aflað er þekkingar á byggingarlist bæjarumhverfis og einstakra húsa og hún studd staðfræðilegum og sagnfræðilegum athugunum og getur orðið grunnur að stefnumörkun um varðveislu byggðar og húsa í aðal- og deiliskipulagi.“
Höfundur skýrslunnar, Guðmundur L. Hafsteinsson, skrifar m.a. í samantekt:
„Heimildaöflun fór fram fyrra hluta árs 2006, vettvangskönnun var gerð sumarið 2006 en úrvinnsla og niðurstöður unnar síðari hluta ársins og á fyrri hluta árs 2007. Vinnu við greinargerð þessa var að mestu lokið í sumarbyrjun 2007 og var hún síðan tekin til umfjöllunar hjá sveitarstjórn og niðurstöður könnunarinnar notaðar við endurskoðun á aðalskipulagi Reykhólahrepps. Eftir yfirlestur og fáeinar breytingar á vor- og haustmánuðum 2010 var ákveðið að gefa greinargerð þessa út síðla árs 2010.
Helstu niðurstöður byggða- og húsakönnunar í Flatey eru þær, að þorpið býr yfir sérstökum gæðum sem óvíða eru ennþá til staðar í sama mæli í svo fáum húsum sem hér um ræðir. Það kemur vart neinum á óvart sem til þekkir. Þessi gæði eru bundin umhverfi húsanna, samstæðum húsa, þorpinu sem heild og einstökum húsum. Minnstu inngrip eða breytingar á húsum geta því haft veruleg áhrif á ásýnd byggðar. Sérstæða þorpsins er slík, að ekki verður litið fram hjá þeirri staðreynd að mikilvægi þess er ekki einungis bundið við Flatey eða Reykhólahrepp heldur landið allt.“
Ennfremur:
„Aðalskipulag Reykhólahrepps 2006-2018 var samþykkt af sveitarstjórn 20. nóvember 2008 og staðfest af umhverfisráðherra 24. ágúst 2009. Í staðfestri greinargerð með aðalskipulaginu segir svo á bls. 86 um hverfisvernd fyrir þorpið í Flatey og aðliggjandi svæði:
Þorpið býr yfir sérstökum gæðum sem eru bundin umhverfi húsanna, þorpinu sem heild og einstökum húsum, sem hvergi eru ennþá til staðar í sama mæli á landinu. Um er að ræða þyrpingu um 40 gamalla timburhúsa sem mynda fjölbreytt bæjarmynstur. Norðan og austan þorpsins er strandsvæði með bryggjum, görðum og vörum s.s. Silfurgarður, Stórigarður og Eyjólfsbryggja sem eru merkir minnisvarðar um tilraunir í hafnarbótum við Flatey. Á strandsvæðinu er auk þess fjölbreytt fuglalíf. Innan svæðisins og í jaðri þess eru mýrarnar; Skansmýri, Innstabæjarmýri og Brekkubæjarmýri sem hafa takmarkað byggðaþróunina og eru ekki framræstar. Suðurhluti hverfisverndaða svæðisins nær yfir kirkjuna, kirkjugarðinn og Klausturhóla þar sem talið er að landnámsbærinn hafi staðið.“
Á meðfylgjandi mynd úr skýrslunni er Flateyjarþorp um aldamótin 1900. Eyjólfshús er lengst til vinstri, því næst sést Saltkjallarinn, Samkomuhúsið, Svartapakkhús, Sölubúðin (Vorsalir), Vogur og á bak við það Gamlhús og skemmur sunnan þess til hægri. Smellið á myndina til að stækka hana.