Rækjubjörgun og aðstoð við Orkubú Vestfjarða
Björgunarsveitin Heimamenn í Reykhólahreppi var kölluð út um tíuleytið á miðvikudagskvöld til að bjarga rækju úr 40 feta gámi sem hafði farið á hliðina í flughálku í Geiradal. Um tólf manns úr sveitinni gengu í þetta en fleiri þurfti til þannig að um tíu manns úr Búðardal voru einnig fengnir í þetta verk. Hjólaskófla og traktorsgrafa voru notaðar til að flytja farminn í skóflunum yfir í gám á öðrum bíl, en rækjan var í tuttugu kílóa pokum. Heim voru menn komnir að verki loknu á þriðja tímanum eða um þrjúleytið um nóttina.
Daginn eftir fór Brynjólfur V. Smárason formaður Heimamanna á snjóbíl sveitarinnar upp á Trékyllisheiði, sem er upp af Bjarnarfjarðarhálsi milli Steingrímsfjarðar og Reykjarfjarðar á Ströndum. Þar vann hann við að flytja rafmagnskapla fyrir Orkubú Vestfjarða og var við það verk allan þann dag.