Rafknúnir bílar: Ísland í öðru sæti
Ísland er annað mesta rafbílaland Evrópu á eftir Noregi. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem teknar hafa verið saman af EAFO, stofnun á vegum Evrópuráðsins sem hefur eftirlit með þróun og útbreiðslu nýrra orkugjafa. Þar kemur fram að á fyrstu ellefu mánuðum nýliðins árs hafi 5,3% nýskráðra bifreiða á Íslandi verið rafbílar. Er þar vísað jafnt til bifreiða sem ganga einvörðungu fyrir rafmagni og tengiltvinnbíla sem ganga fyrir rafmagni og jarðefnaeldsneyti.
Höfuð og herðar yfir alla aðra ber Noregur, þar sem hlutdeild rafbíla í hópi nýskráðra bifreiða var hvorki meira né minna en 29%. Þau Evrópulönd sem raða sér á eftir Noregi og Íslandi eru Svíþjóð með 3,6% hlutdeild, Holland með 3,4% og Sviss með 1,8%. Að meðaltali var hlutdeild nýskráðra rafbíla í Evrópu hins vegar aðeins rúmt 1,2% á árinu 2016.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í baksviðsgrein Stefáns Einars Stefánssonar blaðamanns í Morgunblaðinu í dag.
Geta má þess til viðbótar, að miðað við fólksfjölda er Noregur með langhæst hlutfall rafknúinna bíla í heiminum öllum. Utan Evrópu er aðeins borgríkið Hong Kong í hópi efstu ríkja í þessu efni. (Heimild: Wikipedia).
Þrjár rafhleðslustöðvar væntanlegar í Reykhólahreppi fyrir sumarið