Tenglar

25. nóvember 2012 |

Rafmagnið kom á Reykhóla fyrir 50 árum

Tíminn 28. nóv. 1962.
Tíminn 28. nóv. 1962.
1 af 2

Veiturafmagn komst á Reykhólaþorpið litla (sem þá var lítið en er nú stórt) og allmarga bæi í Reykhólasveit fyrir réttum fimmtíu árum. Blaðafréttum ber ekki nákvæmlega saman um dagsetninguna. Miðvikudaginn 28. nóvember 1962 birtust fréttir af þessum viðburði bæði í Tímanum og Þjóðviljanum. Séra Þórarinn Þór á Reykhólum, fréttaritari Tímans, segir að þetta hafi verið „síðastliðinn sunnudag“ eða þann 25. nóvember (sem núna ber einnig upp á sunnudag). Játvarður Jökull Júlíusson, bóndi og fræðimaður á Miðjanesi, fréttaritari Þjóðviljans, segir að þetta hafi gerst „fyrir helgina“.

 

Þessara tímamóta finnst ekki í fljótu bragði getið í öðrum blöðum á þessum tíma. Eftir áramótin birtist hins vegar í Morgunblaðinu ítarlegt fréttabréf frá Sveini Guðmundssyni, bónda og kennara í Miðhúsum í Reykhólasveit, þar sem hann greinir frá mörgu varðandi héraðið og atburði á liðnu ári. Fyrirsögnin er óneitanlega tilkomumikil: Nýtt mjólkurbú - Heimskulegur áróður Framsóknar - Vaxandi ferðamannastraumur - Slæm símaþjónusta. Í fréttabréfinu nefnir Sveinn tilkomu rafmagnsins með þessum hætti:

 

Rafmagnið var lagt á flesta bæi í innsveit Reykhólahrepps og út yfir Barmahlíð að Reykhólum og á næsta ári er ákveðið að rafmagnið verði lagt út að Árbæ á Reykjanesi.

 

Fréttirnar í Þjóðviljanum og Tímanum má lesa hér með því að smella á myndirnar og stækka þær þannig. Segja má að þær bæti hvor aðra upp með einhverjum hætti líkt og jafnan er.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31