Tenglar

29. desember 2012 |

Rafmagnsleysi og tjón vegna veðurofsans

Veðrið á sjálfvirkum veðurstöðvum klukkan 13. Af vef Veðurstofu Íslands.
Veðrið á sjálfvirkum veðurstöðvum klukkan 13. Af vef Veðurstofu Íslands.

„Þakkantar og jafnvel þök hafa verið að fjúka en vegna veðurhamsins hafa menn ekki komist í að gera nokkurn skapaðan hlut,“ sagði Jens Hansson í Mýrartungu, formaður Björgunarsveitarinnar Heimamanna í Reykhólahreppi, núna laust fyrir klukkan 15. Þar í innsveitinni var rafmagnslaust í tæpa fjóra tíma í morgun. Rafmagnslaust er bæði í Gufudalssveit og Gilsfirði. Frá því snemma í morgun hefur rafmagn farið í nokkur skipti af Reykhólaþorpi en ekki lengi í hvert skipti. Þar er keyrð varaaflsstöð.

 

Á Reykhólum var grenjandi rigning fram undir morgun og jörð alauð. Úrkoman snerist svo í snjókomu og síðan hefur verið öskubylur. Götur á Reykhólum eru samt vel færar vegna þess að snjórinn tollir þar ekkert í hvassviðrinu.

 

Á færðarkorti Vegagerðarinnar um kl. 15 eru vegir í Reykhólahreppi merktir þungfærir nema hvað leiðin um Klettsháls og Þröskuldaleið eru merktar ófærar. Samkvæmt kortinu hefur enginn bíll farið um talningarstað Vegagerðarinnar fyrir ofan Gillastaði í innsveitinni frá miðnætti. Leiðin frá Króksfjarðarnesi og suður á bóginn er merkt ófær.

 

Veðurstöðin fyrir neðan Reykhóla sýnir að meðalvindur hafi mest farið upp í 29 m/sek um hádegisbilið en mestu hviður hafi verið 37 m/sek nokkrum sinnum frá því mjög snemma í morgun og fram yfir hádegi. Á Klettshálsi fór meðalvindur mest í 42 m/sek um hádegisbil og upp í 51 m/sek í mestu hviðu. Á Hjallahálsi fór meðalvindur mest í 41 m/sek um hádegisbil og upp í 51 m/sek í mestu hviðu.

 

Í veðurfræði er það skilgreint sem fárviðri þegar meðalvindhraði fer yfir 32,6 m/sek. Meðalvindhraði (meðalvindur) táknar vindhraða að meðaltali í tíu mínútur.

 

Samkvæmt spá Veðurstofunnar má búast við því að veðrið haldist svipað á þessum slóðum langt fram eftir kvöldi.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31