Raforkuframleiðsla vænlegur kostur á Reykhólum?
Unnt er að framleiða allt að 45 MW af raforku úr borholum á 29 hverasvæðum sem núna eru aðeins nýtt að hluta. Raforkuframleiðsla í slíkum jarðvarmavirkjunum gæti verið hluti af lausn á orkuskorti sem Orkustofnun telur að geti orðið á næstu árum. Jafnframt væri hægt að nýta orkuna án þess að nota yfirlestað flutningskerfi Landsnets.
Björn Már Sveinbjörnsson, tæknifræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR), flutti erindi um þessa möguleika á málstofu Orkustofnunar í fyrradag. Skýrslan sem hann byggir á er hluti af verkefni um greiningu árangurs jarðhitaborana á Íslandi sem unnið er að.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Ef varmaaflið í áðurnefndum 29 hverasvæðum (jarðhitakerfum) yrði nýtt til raforkuframleiðslu niður að 80 stigum fælist í afgangsvatninu varmaafl upp á rétt um 500 MW til beinna nota frá 80 og niður í 35 stig.
Björn Már segir að hægt væri að nýta þessar smávirkjanir á viðkomandi svæði án þess að setja rafmagnið inn á flutningskerfi Landsnets. Með því væri hægt að sneiða hjá þeim vandræðum sem eru í flutningi raforku.
Hann segir víða unnt að auka nýtingu svæðanna með því að bæta raforkuframleiðslu við. Það ætti ekki að skerða möguleika hitaveitnanna sem fyrir eru. Á mörgum þessara staða sé orkuvinnslugeta svæðanna ekki fullnýtt, gufan eða vatnið fari til spillis.
Súluritið á myndinni fylgir úttektinni í Morgunblaðinu (smellið á myndina til að stækka). Þar má sjá „sannað“ og „mögulegt“ rafafl sem fá mætti úr jarðhitakerfunum 29 sem um ræðir. Eins og sjá má liggur fyrir „sannað“ rafafl að öllu leyti í 25 tilvikum, en í fjórum tilvikum, þar á meðal á Reykhólum, er bæði um „sannað“ og „mögulegt“ rafafl að ræða. Í þeim tilvikum liggja fullnægjandi rannsóknir ekki enn fyrir. Eins og hér kom fram í fyrradag er núna einmitt unnið að slíkri greiningu á jarðhitanum á Reykhólum.
Hvað jarðhitakerfið á Reykhólum varðar er gert ráð fyrir allt að 1,2 MW rafafli miðað við ofangreindar forsendur. Það rafmagn ætti að duga fyrir allt að þúsund heimili.
_______________________________
Í þessum efnum er vissulega að fleiri þáttum að hyggja hvað Reykhóla snertir en fram kemur í þessari frétt. Því verða væntanlega gerð skil hér á vefnum á morgun.