Rafræn stjórnsýsla og frjáls sameining sveitarfélaga
Eiríkur Kristjánsson og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir munu af hálfu Reykhólahrepps sitja landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 23. mars. Meðal þess sem fjallað verður um á þinginu eru skilagrein og tillögur nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins og niðurstöður könnunar meðal sveitarstjórnarmanna og alþingismanna um stöðu sveitarstjórnarstigsins, verkefni, skipan, íbúalýðræði og áhrif efnahagshrunsins.
Nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins skilaði tillögum sínum í síðasta mánuði og kemur þar víða við. Í fyrsta hluta tillagnanna er fjallað um rafræna stjórnsýslu og segir þar m.a.:
Nefndin fagnar þeirri þróun sem á sér stað á þessu sviði, nýjum ákvæðum í sveitarstjórnarlögum sem tryggja betri upplýsingar til íbúa um málefni sveitarfélags og aðkomu þeirra að ákvarðanatöku. Nokkur sveitarfélög hafa tekið frumkvæði að aukinni þátttöku íbúa í ákvarðanatöku með beinum kosningum og auknu samráði. Þessi þróun mun halda áfram og er mikilvægt að ríkisvaldið, Samband íslenskra sveitarfélaga og einstakar sveitarstjórnir styðji þessa þróun eins og kostur er.
Þó svo að Íslendingar séu tæknivæddir og flest heimili séu tölvuvædd og nettengd stendur Ísland nágrannalöndunum að baki hvað varðar framboð á rafrænni þjónustu. Danmörk er talin vera til fyrirmyndar á þessu sviði. Þar hefur verið þróuð ein gátt (www.borger.dk) fyrir alla rafræna þjónustu í landinu en í hagræðingarátaki þar er eitt helsta sóknarfærið talið vera á þessu sviði. Það er því eftir miklu að slægjast; hagræðingu, bættri þjónustu við íbúana, betra aðgengi að upplýsingum og auknu lýðræði.
Til að auðvelda almenningi notkun rafrænnar stjórnsýslu hafi innanríkisráðuneytið, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, forgöngu um að rekin sé ein þjónustugátt, Ísland.is, fyrir rafræna þjónustu hins opinbera. Ísland.is er rekið af Þjóðskrá Íslands en í þriggja manna stjórn stofnunarinnar er fulltrúi innanríkisráðuneytis og fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Bæði stjórnsýslustigin, ríki og sveitarfélög, hafi þannig vettvang til þróunar og daglegs rekstrar þjónustugáttarinnar.
Opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, hafi samstarf um og samnýti lausnir á sviði rafrænnar stjórnsýslu eins og kostur er. Dæmi um slíkar lausnir er rafræn þjónusta með áherslu á sjálfsafgreiðslu og samræmd umsóknareyðublöð í málaflokkum sem undir sveitarfélög heyra, t.d. húsaleigubætur.
Nefndin leggur til að málefni aldraðra, heilsugæsla og heimahjúkrun verði flutt samhliða til sveitarfélaga. Sér nefndin fyrir sér að yfirfærsla þessara verkefna geti farið fram á árunum 2014-2015.
Meðal annarra tillagna nefndarinnar:
● Að áfram verði fylgt þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið um frjálsa sameiningu sveitarfélaga og aukna samvinnu þeirra.
● Að sveitarstjórnir nýti sér ákvæði í nýjum sveitarstjórnarlögum sem heimilar þeim að reyna nýjar leiðir í stjórnsýslu og ákvarðanatöku.
● Að samráð ríkis og sveitarfélaga um fjármál og rekstur hins opinbera verði eflt.
► Skilagrein og tillögur nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins
► Staða sveitarstjórnarstigsins, verkefni, skipan, íbúalýðræði og áhrif efnahagshrunsins - könnun
► Gögn varðandi landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 23. mars 2012
► Samband íslenskra sveitarfélaga