Rann á lyktina af þangmjöli
Gáttaþefur þefaði sig inn í Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum í nótt. Eins og fram hefur komið í fréttum er smjörskortur í Noregi og þess vegna voru send frá Reykhólum til Noregs ein 1.400 tonn af þangmjöli svo að þar væri hægt að baka og hafa líka eitthvað ofan á brauð. Þeir Artur og Torfi voru á vakt í verksmiðjunni í nótt og gáfu Gáttaþef brauð með þangáleggi og þjóðlega blöndu af malti og appelsíni. Þegar Einar Sveinn og Þorgeir komu í morgun voru þeir ekki ánægðir og sögðu að hér væri þjóðlegast að drekka hveravatn með þangmjölinu.
Gluggagægir er næsti bróðir Gáttaþefs á undan og var ennþá á sveimi niðri í Karlsey. Hann hafði ekki þorað í burtu sakir hálku og þorði samt ekki að hafa sig í frammi en tók þó meðfylgjandi myndir. Að sjálfsögðu gegnum glugga.
Gáttaþefur er sá ellefti af íslensku jólasveinunum þrettán. Um hann orti Jóhannes úr Kötlum í sínu fræga kvæði um jólasveinana - þá vissi hann ekki að ilmur af þangmjöli yrði eins girnilegur þessum sveinum og þefur af laufabrauði:
Ellefti var Gáttaþefur,
aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.
Hann ilm af laufabrauði
upp á heiðar fann,
og léttur eins og reykur,
á lyktina rann.
Elstu heimildir íslenskar nefna ekki fjölda jólasveinanna. Þó er þetta fremur óljósa erindi í Grýlukvæði frá síðari hluta 18. aldar:
Löngum leiðir beinar
labba jólasveinar,
þessa þjóðir hreinar
þrettán saman meinar.
Oft sér inni leyna
illir mjög við smábörnin.
Nöfn jólasveinanna sjást hvergi í rituðum heimildum fyrr en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar árið 1862.
Jóhannes úr Kötlum birti sínar alkunnu jólasveinavísur með teikningum Tryggva Magnússonar listmálara árið 1932. Hann notar nánast alveg sömu nöfnin og birtust í þjóðsögunum sjötíu árum fyrr. Undantekningin er sú, að hann setur Hurðaskelli í staðinn fyrir Faldafeyki. Með þeim hætti hafa hin hálfopinberu þrettán jólasveinanöfn verið þekktust síðan.
Ýmis önnur nöfn á jólasveinum eru vissulega þekkt. Hér í Barðastrandarsýslum var sérlega kunnur jólasveinninn Reykjasvelgur, sem sagður var liggja með gapandi kjaft yfir eldhússtrompum og gleypa í sig reykinn af hangiketinu fyrir jólin. Nafnið bendir til náinna eðliseiginleika með bræðrunum Gáttaþef og Reykjasvelg.