Tenglar

28. apríl 2016 |

Rannsókn á lífmassa og endurvexti þangs og þara

Dr. Karl Gunnarsson og María Maack líffræðingur á Reykhólum.
Dr. Karl Gunnarsson og María Maack líffræðingur á Reykhólum.
1 af 19

„Að mínum dómi skutu tölur sem Karl birti og það sem fram kom í umræðum, einkum frá Þresti Reynissyni, stoðum undir það sem við hjá Þörungaverksmiðjunni höfum haldið fram, að þangið í Breiðafirði þoli ekki mikið meiri nýtingu miðað við óbreytta stýringu verksmiðjunnar og áframhaldandi ísalausa vetur,“ segir Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum.

 

Þar er hann að tala um tvo fyrirlestra sem dr. Karl Gunnarsson, sérfræðingur í þangi og þara hjá Hafrannsóknastofnun, flutti á Reykhólum fyrir nokkru, og umræður í kjölfar þeirra. Karl hefur um langt árabil stundað rannsóknir í Breiðafirði og gjörþekkir fjörðinn, lífríkið og aðstæður allar á svæðinu. Á árum áður kom hann oft í Þörungaverksmiðjuna og núna hafa þau tengsl verið endurvakin.

 

Um þrjátíu manns mættu á fundinn, sem Þörungaverksmiðjan stóð fyrir og haldinn var í borðsal Reykhólaskóla. Meðal fundargesta má nefna Sturlu Böðvarsson, bæjarstjóra í Stykkishólmi, og Einar Svein Ólafsson, talsmann Marigot, sem stendur ásamt Matís að væntanlegri þörungaverksmiðju í Stykkishólmi. Einar Sveinn var framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum í rúm tvö ár á árunum 2011 til 2013.

 

Fundurinn hófst með því að verksmiðjan bauð gestum í kjötsúpu um hádegið. Síðan flutti dr. Karl fyrri fyrirlestur sinn og fjallaði um þörunga (þang og þara) almennt, líffræði þeirra, vaxtarsvæði, skyldleika og óskyldleika, útbreiðslusvæði og þátt þeirra í lífríki Breiðafjarðar. Síðan ræddi hann um not og nytjar þörunga fyrr og síðar. Fram kom m.a. að í íslenskum ritum eru einna bestar heimildir í heiminum um slíkt og hvernig þang og þari voru nýtt á fyrri tímum. Söl voru til dæmis mikilvæg og verðmæt og mikið nýtt af öllum sem aðgang höfðu að sölvafjörum.

 

Að loknu miðdegiskaffi og kleinum gerði Karl grein fyrir þeim rannsóknum á þangi og þara í Breiðafirði sem Hafrannsóknastofnun hefur sett af stað og eiga að standa að minnsta kosti í næstu þrjú sumur. Þar verður byrjað á að meta lífmassa klóþangs og endurvöxt þess eftir skurð. Næst verður metinn lífmassi hrossaþara og stórþara og endurvöxtur hans eftir tekju. Mælingar verða gerðar á ýmsum stöðum og stærð vaxtarsvæða og þéttleiki metinn m.a. með aðstoð loftmynda og gervihnattamynda.

 

Töluverðar umræður urðu í framhaldi af erindum Karls. Fram kom greinilegur áhugi fundargesta á lífríki Breiðafjarðar og nytjum þess.

 

Áðurnefndur Þröstur Reynisson (Bergsveinsson frá Gufudal) tengdist Þörungaverksmiðjunni um langt árabil og gerir það óbeint enn í dag. Hann kom með innskot í fyrirlestra dr. Karls þegar honum þótti ástæða til, en ræddi málin þó mest í lokin. Þá bað hann fyrirlesara að sýna aftur glæru með súluriti yfir árlegt landað magn af klóþangi og benti á, að eftir að fyrstu umferð lauk, um og upp úr 1980, hefðu menn verið að slá árlega nánast allt það sem óx. Sláttumenn hafi verið þar í harðri samkeppni við ís og storma, sem líklega hafi tekið meira en sláttuprammarnir. Það hafi ekki verið fyrr en um aldamótin sem ástandið fór að batna með betri tíð.

 

Myndirnar frá fundinum sem hér fylgja tók Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli. Á mynd nr. 11 má sjá mynd af listaverki unnu úr þara, sem birtist á sýningartjaldinu í hléi. Sveinn tók einnig myndirnar úr Berufirði og Króksfirði (nr. 16 og 17). Þar er frekar mikið útfiri, og í fjörunum  vex einmitt þangið. Súluritin um tekju klóþangs og hrossaþara (síðustu myndirnar) eru úr skyggnusýningu dr. Karls á fundinum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31